Í gögnum sem WikiLeaks hefur birt á vef sínum kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi íhugað að veita Íranskeisara hæli hér á landi árið 1979. Stuttu áður var keisarinn, Mohammad Reza Pahlavi, hrakinn frá völdum í Íransbyltingunni svokölluðu.
Bréfið, sem birt hefur verið á vef Wikileaks, er frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna til sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík. Bréfið er frá 4. desember 1979 og kemur skýrlega fram í því að efni þess sé trúnaðarmál.
Í bréfinu segir að heimildamaður, sem sé náinn forseta Íslands - sem þá var Kristján Eldjárn - fullyrði að íslensk stjórnvöld íhugi að veita Íranskeisara hæli Íslandi.
Farið er fram á að þessi orðrómur sé kannaður.
Benedikt Gröndal var forsætisráðherra og utanríkisráðherra á þessum tíma. Sighvatur Björgvinsson var fjármálaráðherra í stjórninni.
Í samtali við RÚV segir hann að þetta mál hafi ekki komið til tals innan ríkisstjórnarinnar en geti ekki útilokað að það hafi verið kannað óformlega. Sjálfur hafi hann ekki heyrt af því fyrr en nú.