Boris Johnson, utanríkisráðherra í Bretlandi, lét hafa eftir sér í sjónvarpsviðtali að Bretland haldi hugsanlega áfram Evrópusamvinnu eftir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu. Johnson var í viðtali á BBC í gær.
Bretar greiddu atkvæði um það síðasta sumar að ganga úr Evrópusambandinu (ESB) í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni svokölluðu. Það hefur í kjölfarið verið nokkuð á reiki hvað það mun þýða og þegar óskað hefur verið eftir áætlunum og útskýringum á stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum eru svörin allavega.
Brexit-ráðherrann David Davis hefur sagt að það komi til greina að borga ESB fyrir aðgang að sameiginlega markaðinum og komast undan öðrum skyldum Evrópusamvinnunar. Johnson segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um þetta. „Þetta er eitthvað sem David Davis er að íhuga. Það þýðir ekki að það hafi verið tekin ákvörðun.“
„Ég hef alltaf haldið að það væru ákveðnir þættir Evrópusamvinnunar sem væri góð hugmynd að taka þátt í í framtíðinni sérstaklega ef það þýðir að við getum borgað með okkur í því,“ sagði Johnson og átti þar við Erasmus-námsstyrki ESB og vísindarannsóknastyrki sambandsins.
Johnson var í viðtölum víðar í gær en á BBC. Á ITV stofnaði hann til hugsanlegs ágreinings milli utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins þegar hann lýsti skoðun sinni um að undanskilja ætti námsmenn í innflytjendatölum stjórnvalda. „Bretland á að vera þekkingarhöfuðborg heimsins og námsmenn eiga ekki að vera teknir saman í þessar tölur,“ sagði hann.
„Leyfðu mér að nefna eina staðreynd: Af öllum kóngum og drottningum, forsetum og forsætisráðherrum í heiminum í dag hefur einn af hverjum sjö menntað sig í Bretlandi,“ sagði Johnson. Forsætisráðuneytið hefur ítrekað hafnað því að undanskilja námsmenn úr opinberum innflytjendatölum.