Hlutabréf í netverslunar- og tæknirisanum Amazon hækkuðu um 2,57 prósent í gær eftir að félagið kynnti nýja tækni sem innleidd verður í búðir á vegum fyrirtækisins á fyrri hluta næsta árs. Með tækninni, sem kölluð er Amazon go, getur fólk gengið inn í verslunina, fundið vörurnar sem það leitar að og farið út úr búðinni án þess að fara að afgreiðslukassa eða bíða í biðröð. Eina sem þarf að snjallsími og hugbúnaður í hann.
Í byrjun næsta árs verður fyrsta búðin sem verður sérhæfð með þessum hætti opnuð í miðborg Seattle þar sem Amazon er með höfuðstöðvar sínar. Markaðsvirði Amazon hefur vaxið hratt á undanförnu ári og nemur það nú 360,9 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 45 þúsund milljörðum króna.
Þessi nýja tækni er talin geta haft mikil áhrif á verslunargeirann í Bandaríkjunum en samkvæmt umfjöllun Seattle Times starfa um 3,5 milljónir manna við afgreiðslustörf í verslunum. Nái þessi nýja tækni Amazon að festa rætur á markaðnum gæti það haft í för með sér erfiðleika og aukið atvinnuleysi hjá fólki sem starfar í verslunargeiranum. Hagkvæmnin í rekstrinum eykst hins vegar verulega og þægindin fyrir viðskiptavini sömuleiðis.
Amazon hyggst sækja enn frekar fram á verslunarmarkaði samhliða vexti í netverslun þar sem fyrirtækið er leiðandi á heimsvísu. Í Bandaríkjunum sækir stærsti vinnuveitandi Bandaríkjanna, WalMart, á í netversluninni en það fyrirtæki er langsamlega stærsti verslunarrekandi í Bandaríkjunum en árlegar tekjur þess nema tæplega 500 milljörðum Bandaríkjadala árlega.
Wall Street Journal greindi frá því í gær að Amazon væri með í undirbúningi að opna um tvö þúsund verslanir, af ýmsu tagi, þar sem ný tækni er notuð til að auðvelda fólki að versla.