Alríkislögreglan í Bandaríkjunum, FBI, hefur staðfest mat leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, á því að rússneskir tölvuhakkarar hafi haft áhrif á gang kosninganna í Bandaríkjunum með tölvuárásunum og leka á gögnum sem þeir komust yfir.
Þetta stafesti FBI í dag, en CIA birti yfirlýsingu um málið í síðustu viku þar sem óyggjandi sannanir voru sagðar vera til fyrir því að tölvuárásir, meðal annars í aðdraganda ársfunds Repúblikana og einnig á tölvupóst John Pedista, sem stýrði framboði Hillary Clinton. Gögnum frá honum var lekið til Wikileaks sem birti töluvpósta sem sköðuðu framboð Hillary.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lét hafa eftir sér í viðtali við NPR í gær, að Bandaríkin muni rannsaka málin í þaula og bregðast við. Tímasetning verði ákveðin af Bandaríkjunum og líka til hvaða ráðstafana verði gripið.
Donald J. Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur sagt hann telji upplýsingarnar sem CIA vísar til, vera „dellu“ og að hann trúi þeim ekki. Hann hefur slegið þær útaf borðinu og sagt að ekkert hafi gerst sem hafi skipti máli fyrir kosningarnar.
Samkvæmt frétt Washington Post í dag, kemur fram John Brennan, sem stýrir CIA, hafi hitt Jim Comey, forstjóra FBI, og að þeir hafi verið sammála um að upplýsingarnar um að Rússar hafi verið með puttann í tölvuárásum í aðdraganda kosninganna, væru bæði réttar og alvarlegar. Hafa upplýsingarnar ennfremur bent til þess að Vladímir Pútín, forseti Rússlands, og nánustu bandamenn hans, hafi búið yfir vitneskju um árásirnar og heimilað þær sérstaklega.
Markmiðið með árásunum hafi verið að styrkja stöðu Trumps gagnvart Hillary, og ýta undir möguleika hans á sigri.
Brennan sagði að teymi starfsmanna stofnanna Bandaríkjanna myndi nú halda áfram rannsóknum sínum, til að draga fram enn betur hvað hefði raunverulega gengið á. Í kjölfarið yrði síðan skýrsla sent til æðstu ráðamanna, sem tækju ákvarðanir um viðbrögð.