Janet Yellen, Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að menntun verði sífellt mikilvægari í alþjóðavæddum heimi og að hagtölur um launaþróun í Bandaríkjunum sýni þetta glögglega. Þetta kom fram í ræðu hennar í University of Baltimore í gær, sem vitnað er til á vef Wall Street Journal.
Hún sagði að tæknilegar framfarir myndu á næstu árum gera kröfu um mikla sérhæfingu á mörgum sviðum, og þar væri góð háskólamenntun lykilatriði. Sveigjanleiki á vinnumarkaðnum væri lykilatriði, og að á þeim vettvangi hefðu náðst fram miklar framfarir á síðustu árum. Atvinnuleysi mælist nú 4,6 prósent í Bandaríkjunum, en hæst fór það í rúmlega tíu prósent árið 2010. Jafnt og þétt hefur dregið úr því og kaupmáttur launa aukist, eftir að Barack Obama tók við stjórnartaumunum, mitt í djúpri fjármálakreppu, í byrjun árs 2009.
Yellen sagði að erfitt væri að greina það nákvæmlega, hversu hratt miklar tæknibreytingar myndu breyta landslaginu á vinnumarkaði en vísbendingar væru um að miklar breytingar væru framundan. Þetta myndi þýða að ný störf yrðu til, og önnur detta út.
Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði í síðustu viku stýrivexti í 0,75 prósent, úr 0,5. Þetta var önnur vaxtahækkun bankans á síðustu átta árum, en vextirnir voru hækkaðir úr 0,25 prósent í 0,5 prósent í desember í fyrra. Yellen sagði við þetta tilefni að efnahagur Bandaríkjanna væri á uppleið og að batamerkin væru farin að sjást í svo til öllum geirum.