Ítalska ríkisstjórnin samþykkti í nótt að koma bankakerfi landsins til bjargar með fjárhagsaðstoð. Það stendur höllum fæti.
Aðgerðir stjórnvalda tengjast sérstaklega slæmri stöðu Monte dei Paschi bankanum. Bankinn greindi áður frá því að honum hafi mistekist að safna fimm milljörðum evra, jafnvirði tæplega 600 milljarða króna, til þess að styðja eiginfjárstöðu bankans.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC nemur björgunarpakkinn 20 milljörðum evra.
Bankinn var stofnaður árið 1472 og er sá elsti í heiminum sem enn er starfandi. Hann stóðst ekki álagspróf Seðlabanka Evrópu í sumar og munar þar miklu.
Ákvörðun stjórnvalda á Ítalíu þykir til marks um að ekki séu öll kurl komin til grafar enn hvað varðar stöðu banka í Suður-Evrópu, en efnahagserfiðleikar hafa leikið fjármálakerfin grátt þar á undanförnum árum.