Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun eiga fund með Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, í vor. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá breska forsætisráðuneytinu í dag.
Trump tekur formlega við embætti síðar í þessu mánuði, en hann hefur lagt mikið upp úr því að mynda sterk tengsl við Bretland, ekki síst Brexit-hreyfinguna svokölluðu. Nigel Farage, sem var einn helsti talsmaður Brexit, aðstoðaði Trump í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum og hélt meðal annars ræðu á baráttufundi hans.
Starfsmannastjórar May, þau Nick Timothy og Fiona Hill, fóru til Bandaríkjanna í desember til þess að hitta samstarfsmenn Trump. Heimsóknin var hluti af undirbúningnum fyrir fund May og Trumps.
Trump liggur nú undir ámæli fyrir að gera lítið úr leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna, sem hafa sagt skýrar sannanir liggja fyrir um tölvuárásir Rússa í aðdraganda kosninganna 8. nóvember í fyrra. Búist er við því að skýrsla um árásirnar verði birt í næstu viku.