Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það af og frá að skýrslu um aflandseign Íslendinga hafi verið haldið leyndri eða frá almenningi, fram yfir kosningar 29. október. Skýrslan var tilbúin nokkrum vikum fyrir kosningar en var ekki birt fyrr en í gær.
„Ég tel hafa verið gríðarlega mikilvægt að taka hana saman,“ segir Bjarni í viðtali við Morgunblaðið og mbl.is um skýrsluna. Hann segir að skýrslan hafi verið unnin að hans frumkvæði. Fjárhæðirnar sem nefndar hafa verið séu mjög háar og mikilvægt sé að komast til botns í málinu, efla skattaeftirlit og aðgerðir sem hægt er að grípa til til að koma í veg fyrir samfélagslegt tap. „Tap samfélagsins er verulegt og þess vegna er það mikilvægt að við höfum verið að breyta lögum, skrifa undir upplýsingaskiptasaminga og efla skattaeftirlit til þess að bregðast við,“ segir í Bjarni í samtali við mbl.is.
Í dag kallaði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, eftir því að fundur færi fram í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem rætt yrði um efni skýrslunnar og einnig hvers vegna skýrslan hefði ekki verið birt fyrir kosningar.
Í lok ársins 2015 var uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljarðar króna, samkvæmt niðurstöðum starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera. Skýrsla nefndarinnar var gerð opinber í dag, en Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að skýrslan væri búin að vera tilbúin frá því í byrjun október.
Starfshópurinn segir að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna á aflandssvæðum geti verið allt frá 2,8 milljörðum til 6,5 milljarða á hverju ári.