Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir Bretar þurfi að búa sig undir erfiðleika og vandamál vegna útgöngu úr Evrópusambandinu. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt með ákveðnum hætti að Bretland muni yfirgefa innri markað Evrópusambandsins hratt og örugglega. Reynt verði að hraða því ferli eins og mögulegt er.
May sagði í ræðu fyrr í vikunni, að Bretar myndu ráða sér sjálfir eftir útgönguna, þar með talið landamærum sínum, og þá myndi Bretland geta gert viðskiptasamninga á frjálsum grundvelli við helstu viðskiptaþjóðir. Útgangan ætti ekki að ógna efnahag Bretlands, þvert á móti að efla hann til lengdar litið.
Óhætt er að segja að ekki séu allir sammála þessar greiningu May. Frá því fyrir um hálfu ári, þegar almenningur í Bretlandi kaus með Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá hafa efnahagshorfur í Bretlandi ekki styrkst neitt. Dýfan hefur hins vegar ekki verið eins slæm og svörtustu spár gerðu ráð fyrir, meðal annars frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Gengi pundsins gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins hefur hins vegar hrapað.
Lagarde sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að þrátt fyrir að May hafi svarað skýrt mikilvægum spurningum, eins og að Bretar ætluðu sér út úr innri markaði Evrópusambandsins, þá væri ekki ljóst á hvaða grundvelli viðskipti frá Bretlandi við Evrópusambandsríki ættu að eiga sér stað þannig að allt gæti gengið vel fyrir sig. Hlutirnir væru ekki einfaldir, heldur flóknir.
Hún sagðist óttast að enginn samningur yrði jafn góður fyrir Bretland eins og að vera hluti af regluverki innri markaðarins.
Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að samningaviðræður um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verði „mjög, mjög, mjög erfiðar.“ Juncker ræddi við blaðamenn í Strassborg í gær og talaði meðal annars um ræðu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um útgönguna.