Stjórnendur hjá Goldaman Sachs, JP Morgan og Morgan Stanley hafa mokgrætt á forsetakjöri Donalds J. Trump, samkvæmt upplýsingum sem Wall Street Journal greindi frá því gær. Samkvæmt upplýsingum sem stjórnendur hafa skilað inn til kauphallarinnar í New York hafa stjórnendur banka á Wall Street samtals selt hlutabréf fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 14 milljarða króna, frá því 8. nóvember þegar Trump var kjörinn. Þetta eru umfangsmestu viðskipti sem stjórnendur í bönkum á Wall Street hafa átt á þessum tíma ársins, í meira en áratug.
Hlutabréf í bönkum á Wall Street hækkuð nokkuð skarpt eftir kjör Trumps en hann hefur þegar lofað því að draga verulega úr eftirliti með fjármálafyrirtækjum á Wall Street og síðan lýsti hann því yfir í gær, á fundi með forstjórum stórfyrirtækja, að hann ætlaði sér að lækka verulega skatta. Þá bað hann þá um að sjá til þess að fyrirtækin myndu skapa störf í Bandaríkjunum, en Trump skrifaði undir fyrirskipun þess efnis í gær að Bandaríkin myndu fara út tólf þjóða viðskiptasamningaviðræðum sem kallast í daglegu tali TPP-viðræður.
Trump segir að Bandaríkin hafi ekki hagnast neitt á þessum samningi og hann vilji frekar að fyrirtæki í Bandaríkjunum haldi starfsemi sinni í landinu. „Nú verður hugsað um verkamennina,“ sagði hann eftir að tilkynnt var um ákvörðun hans. Þingið á þó enn eftir að fjalla um hana og samþykkja hana.
Á meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa eru hagsmunasamtök bænda en að sögn Washington Post telja þau að samningurinn hefði tryggt aðgang að mörkuðum erlendis og að hagsmunirnir séu um fjórir milljarða Bandaríkjadala á ári.