365 miðlar eru á nýjan leik meðlimir í Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni (ÍKSA) sem heldur hina árlegu Edduverðlaunahátíð. Þetta staðfestir Birgitta Björnsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSKA/Eddunnar við Kjarnann. Tilkynnt var um tilnefningar til verðlaunanna í dag.
Greint var frá því í lok ársins 2015 að 365 miðlar hefðu sagt sig úr Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni vegna óánægju með framkvæmd verðlaunanna. Jón Gnarr, þáverandi framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, sagði að RÚV hefði haft 70 prósent vægi í dómnefnd en 365 hafi borið helming kostnaðar. Fyrirtækið hefði lagt fram ýmsar tillögur til að auka vægi almennings í kjöri á verðlaunahöfum, en án árangurs.
Þessu vísaði akademían á bug, sagði fjarstæðukennt að tala um að 70 prósent valnefndarmanna væru tengdir RÚV, og 365 hafi greitt 15% af rekstrargjöldunum, en ekki helming. Engar tillögur hafi heldur verið lagðar fram til að breyta nokkru.
Það er kvikmyndin Hjartasteinn sem fær flestar tilnefningar til Eddunnar í ár, sextán talsins. Hún er tilnefnd í öllum stærstu flokkunum, sem mynd ársins, leikstjóri ársins og leikarar og leikkonur ársins. Kvikmyndin Eiðurinn fékk þrettán tilnefningar.
Tvær þáttaraðir, Borgarstjórinn og Ligeglad, koma til greina sem leikið sjónvarpsefni ársins. Lífstílsþættir ársins eru tilnefndir Ferðastiklur, Rætur og Ævar vísindamaður, og í skemmtiþætti ársins koma Áramótaskaupið, Eddan og Orðbragð til greina. Menningarþættir ársins eru tilnefndir Eyðibýli, Með okkar augum og Rapp í Reykjavík, og fréttaþættir ársins eru Kastljós, Á flótta og Leitin að upprunanum.
Lesa má um tilnefningarnar hér.
Verðlaunin verða veitt sunnudaginn 26. febrúar næstkomandi á Hilton-hótelinu í Reykjavík.