„Ég get alveg viðurkennt það að ég var tilbúin með lögin,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna sem leystist í nótt. Þorgerður Katrín var í símasamtali í Vikulokunum á Rás 1 í hádeginu.
Spurð hvort hún hafi hótað deiluaðilum í kjaradeilunni með lagasetningu segir Þorgerður Katrín ekki svo hafa verið. Deiluaðilar hafi hins vegar vitað að hún hafi verið tilbúin með lagasetninguna ef að höggva þyrfti á hnútinn. Ráðherra hitti samninganefndir beggja aðila í gærkvöldi og lagði til málamiðlunartillögu sem sjómönnum og útgerðarmönnum þótti ganga of skammt.
Það lá því á fyrir báða aðila að ná samningum í nótt til þess að leysa deiluna án aðkomu ríkisins. Það var og gert og það samþykkt að ríkið skyldi ekki hafa neina aðkomu að nýjum samningum.
Þorgerður Katrín segist hafa verið búin að ræða það í ríkisstjórn, á fundi á föstudag, að það gæti komið til þess að lög yrðu sett á verkfallið. Hún segist vera fegin að ekki hafi komið til þess og að aðilar deilunnar hafi getað leyst ágreininginn án aðkomu ríkisins.
„Þetta eru mikilvæg skilaboð inn í aðrar kjaradeilur,“ segir Þorgerður Katrín. „Deiluaðilar geta klárað svona.“ Hún bendir á að þarna hafi það sannast að ríkið þurfi ekki að hafa aðkomu í erfiðar kjaradeilur og að það eigi að líta á hegðan stjórnvalda í þessari deilu sem fordæmi fyrir þær kjaraviðræður sem fyrirhugaðar eru. „Ríkið mun ekki stíga inn í deilur.“
Þorgerður Katrín segir að ríkið geti hins vegar komið að almennum kjaradeilum með almennum aðgerðum. Hún segist hins vegar vera ósammála því að ríkið eigi að beita sértækum aðgerðum í kjaradeilum.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra fagnar því að ekki hafi komið til þess að ríkið stigi inn í kjaradeiluna. „Það eru frábærar fréttir að samningar hafi tekist,“ skrifar Benedikt á Facebook-síðu sína í morgun. „[E]kki síst að ríkið hafi ekki þurft að koma að samningunum. Þorgerður Katrín stóð sig eins og hetja, en það er enginn vafi á því að hennar afstaða markar tímamót í deilum á vinnumarkaði. Samningar eiga að vera á kostnað vinnuveitenda en ekki ríkisins. Til hamingju sjómenn, útgerðarmenn og Þorgerður!“