Fjögur atriði standa upp úr í erlendum fréttum þessa helgina. Það ætti engan að undra að Donald Trump Bandaríkjaforseti er uppspretta flestra þeirra frétta sem bárust um helgina. Heimurinn snýst hins vegar ekki aðeins um hann, þó virðist vera hans eigin skilningur á veröldinni.
Í Rússlandi hafa stjórnvöld lýst yfir vopnahléi í Úkraínu, í Írak hefur herinn hafist handa við að endurheimta stjórn á Mosúl í norðanverðu landinu frá Íslamska ríkinu og í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Evrópu ákvað Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, að draga stuðning Bandaríkjanna við NATO enn frekar í efa.
Kosningafundur Donalds Trump í Flórída
Síðan Donald Trump varð forseti hefur hann ekki eytt einni helgi í Hvíta húsinu, mörgum í Washington til mikillar furðu. Hann hefur kosið að dvelja á hinum stöðum í eigin eigu og slaka á eða sinna starfinu þaðan. Þessa vikuna er hann í Flórída-ríki.
Til þess að reyna að rétta af hrakfarir sínar undanfarinna daga hélt hann stóran fund í Melbourne í Flórída sem hafði öll einkenni kosningabaráttufundar. Fundurinn er eins furðulegur og þessir fundir gerast, og í stað þess að færa rök fyrir gerðum sínum bætti Trump í og fór með allskyns fleipur.
Sjón er sögu ríkari.
Hvað gerðist eiginlega í Svíþjóð?
Eitt þeirra atriða sem mikið hefur verið gert úr á samfélagsmiðlum um helgina eru orð Bandaríkjaforseta um Svíþjóð en svo virðist vera að hann haldi að þar hafi orðið hryðjuverkaárás á föstudagskvöld, í það minnsta talar hann um ótilgreinda atburði í Svíþjóð í sömu andrá og hann nefnir staði þar sem hryðjuverk hafa verið framin síðustu misseri.
Netverjar hafa klórað sér í hausnum vegna þessa. Margar kenningar hafa komið fram, hver annarri fáránlegri. Einhverjir hafa velt því upp hvort Trump hafi átt við Melodifestivalen, undankeppni Eurovision þar í landi sem var sjónvarpað á föstudaginn. Enn aðrir hafa gert að því skóna að IKEA hafi verið fengið til þess að byggja vegginn á landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó.
Vopnahlé í Úkraínu
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, kynnti áform um að vopnahléi verði komið á í Úkraínu og að það muni hefjast á mánudag. Lavrov var viðstaddur fund utanríkisráðherra Úkraínu, Þýskalands og Frakklands í München um helgina þar sem vopnahléið var ákveðið.
Rússar hafa stutt við bakið á uppreisnarmönnum í borgarastríðinu í Úkraínu sem staðið hefur síðan 2013. Uppreisnarmenn hafa haldið stórum svæðum í austurhluta landsins með hjálp Rússa, sem nýttu sér ringulreiðina og upplausnina í Úkraínu og innlimuðu Krímskaga árið 2014. Vesturlönd, meðal annars Ísland, hafa beitt Rússa viðskiptaþvingunum vegna þessa.
Þetta skref Rússa nú talið vera til þess að sýna Vesturlöndum að Rússar vilji vinna með en ekki á móti nágrönnum sínum og um leið fá viðskiptabanninu hnekkt.
Pence dýpkar gjána
Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu (NATO) hafa ekki fengið skýr svör um stefnu bandarískra stjórnvalda eftir að Donald Trump tók við embætti fyrir mánuði síðan. Trump talaði mikið um NATO-samstarfið í kosningabaráttu sinni en hefur dregið úr gífuryrðum undanfarna mánuði. Eftir standa hin bandalagsríkin, engu nær um hver stefna Bandaríkjanna er.
Á fundi utanríkisráðherra Evrópuríkja í München í gær var Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, staddur og ávarpaði hann samkomuna. Án þess að fara ítarlega í málið þá dýpkaði hann frekar gjána sem myndast hefur milli ríkjanna beggja vegna Atlantshafsins.
Pence fór með sömu rullu og yfirmaður hans hefur áður farið með og ítrekaði að Bandaríkin myndu ganga harðar eftir því að aðildarríkin að NATO myndu borga sinn skerf í bandalagið.