Evrópuþingið mun hafna öllum samningum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ef í þeim eru ákvæði sem koma í veg fyrir að íbúar ESB-ríkja sem flytjast til Bretlands á næstu tveimur árum njóti sömu réttinda í landinu og aðrir.
Evrópuþingmenn eru sagðir hafa miklar áhyggjur af fréttum þess efnis að bresk stjórnvöld vilji að fráls för fólks verði stöðvuð frá og með morgundeginum, en þá verður formlega tilkynnt um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Frjáls för fólks er ein grundvallarstoðin í Evrópusamvinnunni, en hún er jafnframt ein helsta ástæða óánægju Breta með sambandið.
Málið var rætt á fundi Michel Barnier, aðalsamningamanns ESB í Brexit-málum, og Evrópuþingmanna í gærkvöldi, að því er Guardian greinir frá. Í kjölfarið var því bætt við kröfur Evrópuþingsins að engar breytingar verði gerðar á réttindum borgara Evrópusambandsins sem koma til Bretlands á næstu tveimur árum, en það er tíminn sem á að taka að ganga frá Brexit-samkomulagi, þótt flestum sé ljóst að sá tímarammi muni ekki halda.
Ítrekað hefur verið greint frá því að stjórnvöld í Bretlandi telji að frá og með morgundeginum eigi að gera breytingar á réttindum innflytjenda frá öðrum Evrópusambandsríkjum, þrátt fyrir að opinberlega hafi verið sagt að það sé mál sem muni koma í ljós í samningaviðræðunum um útgönguna. Stjórnvöld eru sögð hafa áhyggjur af því að mikill fjöldi fólks frá öðrum Evrópusambandsríkjum muni flytjast til Bretlands skömmu áður en samningaviðræðum á að ljúka eftir tvö ár.
Evrópuþingið mun krefjast þess að allir borgarar Evrópusambandsins muni njóta sömu réttinda á meðan Bretland er enn meðlimur í sambandinu. Bretland sé enn aðildarríki að ESB og sem slíkt beri það skyldur.