Benedikt Einarsson, sonur Einars Sveinssonar, segir að faðir sinn hafi verið beðinn um að taka þátt í kaupunum á hlut Landsbankans í Borgun. Í október 2014 hafi þeir feðgar fengið kynningu hjá forsvarsmanni fjárfestahópsins sem keypti 31,2 prósent hlut ríkisbankans á 2,2 milljarða króna rúmum mánuði síðar, eða 25. nóvember sama ár. Á þessum fundi hafi verkefnið verið kynnt og kom þá í ljós að bæði verð og kaupsamningur lá þegar fyrir. Einungis var beðið endanlegrar staðfestingar bankaráðs Landsbankans. „Fjárfestahópurinn var á þessum tíma enn í mótun og faðir minn var beðinn um að taka þátt í kaupunum, sem og hann gerði.“ Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Benedikt skrifar í Fréttablaðið í dag.
Í greininni svarar Benedikt ávirðingum sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, setti fram á sama vettvangi í gær. Þar fór Kári yfir það sem hann kallaði ýmsar gróusögur um Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og viðskipti fjölskyldu hans í skjóli stjórnmálastarfa Bjarna. Benedikt Einarsson og Bjarni eru bræðrasynir og faðir Benedikts, Einar Sveinsson, var einn nánasti viðskiptafélagi Bjarna áður en hann hætti afskiptum af viðskiptum til að einbeita sér að stjórnmálum í lok árs 2008.
Gróusögur Kára
Í grein sinni fór Kári yfir fjögur meginmál. Í fyrsta lagi gagnrýndi hann Bjarna fyrir að fordæma ekki lundafléttuna í kringum kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum árið 2003 „af þeim krafti sem leiðtogi þjóðar ætti að gera“ og setti það í samhengi við eignarhald fjölskyldu Bjarna á Glitni fyrir hrun. Í öðru lagi sagði Kári að orðrómur væri um að fjölskylda Bjarna væri að undirbúa kaup á Íslandsbanka í gegnum Borgun, þar sem hún væri hluthafi. Í þriðja lagi segði sagan að aðkoma Einars Sveinssonar hefði tryggt að kaupendur að hlutnum í Borgun hefðu fengið hann „fyrir slikk og meðal þeirra hafi verið menn úr frændgarði þínum“.
Í fjórða lagi rakti Kári gróusögu um að Kynnisferðir, rútufyrirtæki í eigu ættingja Bjarna Benediktssonar, hefði fengið einkaleyfi á akstri til og frá Keflavíkurflugvelli. Kári sagði síðan að hann teldi ekki endilega að þessar sögur væru sannar, heldur væri hann að skrifa um þær „vegna þess að það hittast varla svo tveir eða fleiri Íslendingar í dag án þess að þær séu sagðar.“
Benedikt, sem er umsvifamikill í viðskiptum sem hann stundar í samstarfi við föður sinn, svarar öllum þessum ávirðingum í grein sinni í Fréttablaðinu í dag. Hann bendir á að faðir hans hafi selt hlut sinn í Glitni snemma árs 2007 og gengið úr stjórn í apríl sama ár, vegna þess að hann hafi ekki átt samleið með FL Group og Baugi, sem þá voru orðin ráðandi í bankanum. Benedikt segir makalaust að láta sér detta í hug að Borgun ætli að kaupa Íslandsbanka. Sú hugmynd hafi að hans viti hvergi verið viðruð enda sé Borgun í 63,5 prósent eigu Íslandsbanka. Varðandi ávirðingar um að einkaleyfi sé á rekstri flugrútunnar segir Benedikt að því sé auðsvarað: svo sé ekki. Allrahanda keyri líka sömu leið í beinni samkeppni við Kynnisferðir.
Segir mikið hafa verið gert úr hlut föðurs síns í kaupunum á Borgun
Varðandi kaupin á 31,2 prósent hlut Landsbankans í borgun, sem fór fram í nóvember 2014, segir Benedikt að mikið hafi verið gert úr hlut föður síns í þeim viðskiptum, en félag í hans eigu keypti um það bil fimm prósent hlut í Borgun í þeim. „Nú þegar rykið hefur sest eftir moldviðrið sem þyrlað var upp og staðreyndirnar liggja fyrir þá er öllum ljóst sem málið skoða að Bjarni hafði hvorki aðkomu né vitneskju um fjárfestingu föður míns. Bjarni, þá sem fjármálaráðherra, hafði heldur ekkert um sölu á hlut bankans í Borgun að segja. Ákvörðun um slíkt var einungis á forræði bankastjóra og bankaráðsins. Það hefur enda enginn sem að sölunni kom haldið öðru fram.“
Benedikt segir að það megi taka undir gagnrýni á það hvernig Landsbankinn stóð að söluferlinu á Borgun. Það hafi enda leitt til þess að breytingar voru gerðar á stjórn bankans og að Steinþóri Pálssyni, fyrrverandi bankastjóra, var sagt upp störfum.
„Hvað snýr að kaupverði hlutanna í Borgun þá hafði hvorki ég né faðir minn neina aðkomu að samningaviðræðum við bankann. Í október 2014 fengum við kynningu hjá forsvarsmanni fjárfestahópsins þar sem okkur var kynnt verkefnið, en undirbúningur kaupanna hafði þá staðið yfir frá því í mars sama ár. Á þeim tíma sem við fengum kynninguna lá verðið og kaupsamningur fyrir og beðið var endanlegrar staðfestingar bankaráðs. Fjárfestahópurinn var á þessum tíma enn í mótun og faðir minn var beðinn um að taka þátt í kaupunum, sem og hann gerði.“
Gríðarlegur hagnaður af kaupunum á Borgun
Mikið hefur verið fjallað um söluna á Borgun á undanförnum árum, en Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá því að hlutur ríkisbankans hefði verið seldur á undirverði og bak við luktar dyr.
Ef Landsbankinn hefði haldið 31,2 prósent eignarhlut sínum í Borgun, í stað þess að selja hann haustið 2014, væri virði hlutarins að minnsta kosti um 5,9 milljarða króna virði, samkvæmt síðasta verðmati sem gert var á hlutnum. Auk þess hefði bankinn fengið rúmlega 2,4 milljarða króna greidda í arð. Samanlagt hefði hluturinn því getað skilað bankanum að minnsta kosti 8,3 milljörðum króna ef hann hefði verið seldur nú og Landsbankinn notið síðustu þriggja arðgreiðslna sem greiddar hafa verið út úr Borgun.
Þrátt fyrir góðan rekstur á undanförnum árum þá hefur Borgun þó líka ratað í umtalsverð vandræði. Í lok febrúar komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu, eftir athugun sem stóð í um níu mánuði, að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun voru gefnir tveir mánuðir til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins. Auk þess var málinu vísað til embættis héraðssaksóknara, þar sem grunur leikur á um saknæmt athæfi sem við liggur refsing samkvæmt lögum.
Á meðal þeirra landa sem Borgun hefur aukið mjög hlutdeild sína í færsluhirðingu eru Bretland, Ungverjaland og Tékkland. Kjarninn hefur fengið það staðfest að á meðal þeirra viðskiptavina sem Borgun hefur tekið að sér að þjónusta séu aðilar sem selji aðgang að klámi, fjárhættuspilum eða selji lyf á netinu. Allt eru þetta athæfi sem er ólöglegt að stunda á Íslandi en Borgun er hins vegar frjálst að veita stoðþjónustu gagnvart í öðrum löndum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkum viðskiptum fylgir þó mikil orðsporsáhætta.