Franski forsetaframbjóðandinn Marine Le Pen, sem hlaut kosningu til þess að taka þátt í annari umferð forsetakosninganna í Frakklandi á sunnudag, hefur sagt af sér formennsku í Þjóðfylkingunni (f. Front National).
Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpssins.
Le Pen tók við formennsku af föður sínum Jean-Marie Le Pen árið 2011 og náði bestum árangri fulltrúa Þjóðfylkingarinnar í forsetakosningum þar í landi. Marine hlaut 7,6 milljón atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna á sunnudag samanborið við 2,8 milljón atkvæði sem faðir hennar fékk þegar hann komst áfram í aðra umferð forsetakosninganna árið 2002. Jean-Marie tapaði þá í seinni umferðinni gegn Jacques Chirac.
Ákvörðun Marien Le Pen er óvænt. Hún tilkynnti um ákvörðun sína í samtali við frönsku sjónvarpstöðina France 2 þar sem hún sagðist vilja setja flokkapólitík til hliðar í seinni umferð forsetakosninganna sem fara fram 7. maí næstkomandi.
Emmanuel Macron er hinn frambjóðandinn sem náði kjöri til þess að taka þátt í seinni umferð forsetakosninganna. Hann er eins ólíkur frambjóðandi Le Pen og hugsast getur og segist til dæmis vera eindreginn Evrópusinni. Hann hefur ný stofnað Framsóknarflokk sinn (f. En Marche!). Ellefu frambjóðendur gáfu kost á sér en margir þeirra hafa lýst yfir stuðningi sínum við Macron í seinni umferð kosninganna. Hann er jafnframt talinn mun líklegri til þess að ná kjöri.
Í kosningabaráttunni sagðist Le Pen vilja takmarka fjölda innflytjenda sem Frakkland tæki á móti og sagðist ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Frakklands í Evrópusambandinu.