Ríkisskattstjóri rannsakar enn mál tengd hluta Panamaskjalanna sem ríkið keypti árið 2015. Alls hefur hann opnað 250 mál vegna þeirra. Þetta kemur fram í ársskýrslu Ríkisskattstjóra fyrir árið 2016.
Meðal nýjunga í skattaeftirliti hjá embættinu er skoðun á heimilsfesti athafnamanna sem eru með skráð lögheimili erlendis en eiga umtalsverðar eignir hér á landi. Í ársskýrslunni kemur fram að nánast allir athafnamenn sem tengjast aflandsfélögum og hafa valið sér búsetu í löndum með hagkvæma skattlagningu hafi verið teknir til skoðunar.
Einnig var farið af stað með skoðun á notkun erlendra kreditkorta hér á landi í þeim tilgangi að sjá hvort þau séu tengd við hugsanlega skattskylda íslenskra aðila.
Ríkisskattstjóri segir að vinna við aflandsgögnin sem keypt hafi verið á árinu 2015 hafi hafist í fyrra og gengið vel, búið hafi verið að opna mál á yfir 250 aðila. Ljóst er hins vegar að fjöldi þeirra mála mun ekki hljóta endurákvörðun, m.a. vegna aldurs mála sem og vegna fyrningarreglna.
Ljóst er að Panamaskjölin hafi leitt til sértækra aðgerða í öðrum ríkjum, en OECD kallaði til sérstaks fundar um skjölin í apríl 2016. Á honum var stofnaður vinnuhópur um gagnalekann og viðbrögð skattayfirvalda við honum, en Ríkisskattstjóri á sæti í honum.
Gögnin þegar borgað sig
Embætti skattrannsóknarstjóra hefur fékk Panamagögnin sem íslensk stjórnvöld keyptu árið 2015 einnig til umfjöllunar. Alls koma 349 Íslendingar og 61 aflandsfélög með íslenska kennitölu fyrir í þeim gögnum, sem keypt voru fyrir 37 milljónir króna. Skattrannsóknarstjóri hefur tekið 34 mál til rannsóknar á grundvelli gagnanna og nú þegar krafið fjóra einstaklinga um 82 milljónir króna vegna meinta skattsvika þeirra, sem er næstum þreföld sú upphæð sem greitt var fyrir gögnin. Rannsókn er einungis lokið í þremur málum og tveimur af þeim hefur verið vísað til héraðssaksóknara vegna gruns um refsiverða háttsemi. Þá er rannsókn í sjö málum á lokastigi.
Bryndís Kristjánsdóttir sagði í samtali við Kjarnann í maí að öll önnur mál úr skjölunum, utan þeirra 34 sem skattrannsóknarstjóri tók til rannsóknar, hafi verið send til Ríkisskattstjóra til frekari meðferðar.