Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir ISIS-leiðtogann Abu Bakr al-Baghdadi hafa fallið í loftárás rússneska hersins á sýrlensku borgina Raqqa í maí.
Loftárásirnar voru gerðar á valin skotmörk í Raqqa eftir að rússnesk yfirvöld fengu upplýsingar um leiðtogafund ISIS.
Varnarmálaráðuneytið tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í morgun. Fréttastofa Reuters greinir frá.
„Hinn 28. maí, eftir að drónar voru notaðir til þess að staðfesta upplýsingar um stað og stund fundar milli leiðtoga ISIS, milli kl. 00:35 og 00:45, réðust rússneskar flughersveitir á skotmark þar sem leiðtogarnir voru staðsettir,“ segir í tilkynningunni.
„Samkvæmt upplýsingunum, sem er nú verið að sannreyna, var Abu Bakr al-Baghdadi á fundi ISIS-leiðtoganna. Hann var tekinn úr umferð í árásinni,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Rússar segja fleiri leiðtoga hafa fallið í árásinni, auk 30 liðsforingja og allt að 300 varðmanna Íslamska ríkisins.
Rami Abdulrahman, stjórnandi sýrlenskrar eftirlitsstofnunar með mannréttindum, segist ekki sannfærður um að fregnirnar af dauða Baghdadi séu réttar. Abdulrahman segir sínar upplýsingar hafa bent til þess að Baghdadi hafi verið annars staðar í Sýrlandi í lok maí.
Abu Bakr al-Baghdadi er 46 ára gamall Íraki. Hann klauf sig frá hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda árið 2013, tveimur árum eftir að Osama bin Laden var tekin höndum og drepinn af bandarískum hersveitum. Síðastu myndbandsupptökurnar af Baghdadi eru síðan 2014 og sýna þær hann lýsa yfir stofnun kalífats úr predikunarstól í Grand al-Nuri moskunnar í Mosúl.