Vöru-og þjónustuinnflutningur Íslendinga hefur aukist mikið undanfarin misseri, sér í lagi hefur innflutningur á sjónvarpstækjum aukist um nær þriðjung á einu ári. Á sama tíma má greina breytt neyslumynstur ferðamanna, en kortavelta hvers erlends ferðamanns hefur dregist saman um 20% á síðustu fimm árum. Þetta kemur fram í nýbirtri greiningu Arion banka á utanríkisviðskipti Íslands.
Ef miðað er við gengisvísitölu, verðlag í krónum og neyslumynstur ferðamanna má ætla að hjá ferðamönnum hefur verðlag innlendrar þjónustu hækkað um allt að 81% frá maí 2012 til maí 2017. Samhliða þessari verðhækkun má greina um það bil 20% samdrátt í kortaverslun þeirra fyrir sama tímabil í mörgum verslunargeirum, fyrir utan dagvöruverslun.
Í greiningunni segir að sterkar vísbendingar séu um að hver ferðamaður dvelji skemur og ferðist minna innanlands. Fleiri ferðamenn komu til landsins með árunum síðan 2012, en nýting hótelherbergja á Suðvesturhorninu jókst mun meira en á stöðum fjarri Höfuðborgarsvæðinu. Frá febrúar 2016 fækkaði gistinóttum hvers ferðamanns úr 2,5 niður í 1,5 í apríl síðastliðinn.
Mikill kraftur hefur verið í innflutningi á vöru og þjónustu í kjölfar kaupmáttaraukningar Íslendinga. Sem dæmi hefur innflutningur á sjónvarpstækjum aukist um nær þriðjung á einu ári og hlutfall landsmanna sem fara mánaðarlega til útlanda hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum. Einnig hefur vöruinnflutningur atvinnulífsins aukist umtalsvert, en vöxtur í innflutningi byggingarvara gefur góðar vísbendingar um að ráðist verði í mikla uppbyggingu í náinni framtíð.
Samhliða auknum innflutningi hefur vöruútflutningur minnkað miðað við sama tímabil í fyrra, en báðir þættir hafa neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð við útlönd. Greiningardeildin telur hins vegar vöruútflutninginn muni taka við sér þegar áhrif sjómannaverkfallsins fjara út með árinu.
Sögulega hefur viðskiptajöfnuður fylgt raungenginu, en með vexti ferðaþjónustunnar hefur myndast gjá þar á milli. Fjallað er um þetta í greiningunni, en talið er að útflutningur og hagkerfið í heild muni ekki ráða við núverandi raungengi þegar horft er til lengri tíma. Hins vegar telur hún að raungengið muni halda áfram að styrkjast á næstu þremur árum en að hægja fari á vextinum, eins og sést á mynd hér að ofan.