Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna hefur lækkað nokkuð frá byrjun árs, þrátt fyrir losun gjaldeyrishafta. Sjóðirnir þyrftu að fjárfesta rúmlega 1.000 milljarða erlendis, vilji þeir ná því hlutfalli sem fjármálaráðherra telur vera æskilegt.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði í viðtali við Kjarnann í júní að hann teldi hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða af heildareignum ætti að vera um 50%. Einnig sagði hann að það komi vel til greina að grípa til aðgerða við að þrýsta sjóðunum í frekari erlendar fjárfestingar ef þeir hreyfi sig ekki sjálfir í þá átt.
„Hlutfall þeirra í t.d. innlendum hlutabréfum er orðið óþægilegt félagslega. Ég held að það væri heilbrigt að þeir færu meira út og að almenningur færi að huga meira að því að dreifa sinni áhættu með gjaldeyrisreikningum,“ segir Benedikt.
Í byrjun árs 2017 var hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna 22,6%. Undir lok maímánaðar hafði það hins vegar lækkað niður í 21,0%, samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Vilji lífeyrissjóðirnir hækka hlutfall erlendra eigna upp í 50% þyrftu þeir að færa 1.055 milljarða úr innlendum fjárfestingum út fyrir landsteinana.
Rýrnun erlendra eigna lífeyrissjóðanna má að nokkru leyti útskýra með hækkun gengisins, en íslenska krónan hafði styrkst töluvert á tímabilinu janúar-maí. Þar sem erlendar eignir eru gefnar upp í íslenskum krónum rýrnuðu þær samhliða styrkingu krónunnar.
Samkvæmt ársreikningum lífeyrissjóðanna voru hlutföll erlendu eigna þeirra undir lok árs 2016 eins og sjá má á töflu hér að neðan. Hlutfall erlendra fjárfestinga þessara átta lífeyrissjóða var oftast rúmlega 20%. Lægst var það hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga en hæst hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum.
Lífeyrissjóðir | Hlutfall erlendra eigna í árslok 2016 |
---|---|
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins | 17% |
Lífeyrissjóður verslunarmanna | 26% |
Gildi | 26% |
Festa | 18% |
Lífeyrissjóður verkfræðinga | 14% |
Almenni lífeyrissjóðurinn | 23% |
Stapi | 24% |
Frjálsi | 28% |