Stjórnvöld í Grikklandi hafa ákveðið að gefa út ríkisskuldabréf að nýju eftir þriggja ára hlé. Þetta kemur fram á frétt á vef Bloomberg.
Samkvæmt tilkynningu frá kauphöllinni í Aþenu hefur ríkisstjórn landsins ákveðið að gefa út bréf til fimm ára og tveggja ára, en búist er við að útboðið eigi sér stað á morgun.
Með sölunni vonast núverandi ríkisstjórn Alexis Tsipras að undirbúa sig fyrir endalok björgunaraðgerða Evrópusambandsins í ágúst 2018 ásamt því að svala um 19 milljarða evra fjármögnunarþörf landsins. Skuldabréfaútgáfuna má sjá sem stefnubreytingu í kjölfar þess að grísk stjórnvöld náðu ekki að sannfæra kröfuhafa sína um að minnka skuldabyrði landsins.
Samkvæmt viðmælenda Bloomberg, fjárfestingabankamanninum Lutz Roehmeyer hjá Landesbank Berlin, kemur skuldabréfaútgáfan á hárréttum tíma fyrir Grikkland. Hún sé undir lok björgunaraðgerða Evrópusambandsins, eftir samþykki fyrir skuldaminnkun fyrir næsta ár og einnig eftir að AGS hefur sagst ætla líklega að taka þátt í björgunaraðgerðunum. Hins vegar sé hún tilkynnt áður en magnbundin íhlutun Seðlabanka Evrópu endar og vextir hækka á evrusvæðinu.
Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hækkaði framtíðarhorfur í lánshæfi Grikklands, en mat á grískum ríkisskuldabréfum stendur enn í B-, einu þrepi fyrir ofan ruslflokk.