Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ánægður með vinnu við nýjan fríverslunarsamning við Bretland sem á að taka við eftir Brexit. Trump fjallaði um þetta á Twitter en var gagnrýninn á Evrópusambandið um leið.
„Við vinnum að stórum verslunarsamningi við Bretland. Gæti orðið mjög stór og spennandi. STÖRF! ESB er mjög verndartollasinnað við BNA. HÆTTIÐ!“ skrifaði Trump á Twitter, í lauslegri þýðingu.
Fulltrúar Hvíta hússins og viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna vildu ekki svara spurningum fréttaveitunnar Reuters um málið þegar eftir því var leitað.
Fyrr í þessum mánuði ákvað Trump að tryggja fljóta vinnu við nýjan fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Bretlands, jafnvel þó breskir ráðamenn hafi verið efins um að slíkt væri mögulegt.
Á fundi G20-ríkjanna í Hamburg í Þýskalandi fyrr í júlí ræddi Trump við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Þar sagði hann tvíhliða samningi sem „mjög, mjög mikilvægu máli“ og sagði mjög sterkan samning verða frábæran fyrir bæði ríki.
Í kjölfar Brexit mun Bretland þurfa að semja um niðurfellingu tolla og viðskipti við önnur ríki á nýjan leik. Hversu umfangsmikil sú vinna þarf að vera á eftir að koma í ljós, en enn hefur ekki verið ákveðið (í það minnsta opinberlega) hversu mikill aðskilnaður Bretlands og Evrópusambandsins verður.
Brexit – Bretland gengur úr Evrópusambandinu – mun verða í mars 2019, tveimur árum eftir að May virkjaði fimmtu grein Lisbon-sáttmálans sem fjallar um úrsögn úr Evrópusamstarfinu. Brexit mun verða jafnvel þó ekki hafi verið samið um hvernig samskiptum Bretlands og ESB verði háttað til framtíðar.