Samband Bretlands og Evrópusambandsins verður hugsanlega mjög líkt því sem nú er, eftir að Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu í mars 2019. Philip Hammond, fjármálaráðherra í bresku ríkisstjórninni, hefur staðfest að breska samninganefndin sækist eftir því að ákveðið umbreytingartímabil eigi sér stað í þrjú ár eftir formlegt Brexit.
Frá þessu var greint á vef breska dagblaðsins The Guardian í morgun.
Í þessu felst að eftir að Brexit á sér stað muni Bretar enn hafa aðgang að sameiginlega markaði ESB, enn leyfa frjálst flæði fólks inn og út úr Bretlandi og að það geti ekki gert verslunarsamninga við önnur lönd eitt og sér.
Þetta umbreytingartímabil mun svo renna út árið 2022, í aðdraganda næstu þingkosninga eftir fimm ár. Með þessu er í raun verið að framlengja þann tíma sem Bretlandi er gefinn til þess að ganga úr Evrópusambandinu.
Hammond segir að það sé víðtækur stuðningur við þetta í ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra í minnihlutastjórn Íhaldsflokksins. Þessi þrjú ár muni gera útgöngu Bretlands mun „mýkri“.
May er nú í þriggja vikna sumarfríi og þess vegna hefur ekki verið sagt frá þessum áformum breskra stjórnvalda opinberlega, jafnvel þó liðin sé vika síðan ákveðið var að óska eftir við ESB að þessi leið verði farin. Hammond staðfesti sögusagnir um þetta í útvarpsviðtali í dag.
Myrk veraldarsýn Mick Jagger
Þrátt fyrir að útlit sé fyrir að Bretland verði í Evrópusambandinu í fimm ár í viðbót er Brexit þegar farið að seytla í hina ýmsu kima bresks samfélags.
Mick Jagger, best þekktur sem söngvari goðsagnakenndu rokksveitarinnar The Rolling Stones, gaf frá sér tvö lög á fimmtudag sem lýsa myrkri veraldarsýn Jaggers í kjölfar ákvörðunar Breta um að segja sig úr Evrópusamstarfinu.
Lögin England Lost og Gotta Get A Grip segist Jagger hafa samið eftir að hafa verið haldinn kvíða og óvissu um breytingar á stjórnmálalandslaginu. Lögin tvö eru þau fyrstu sem Jagger gefur út einn síðan árið 2011.