Miðað við það sem sérfræðingar hafa náð að lesa úr kóða nýrrar tækni frá tölvurisanum Apple má búast við að nýjasta kynslóð iPhone-snjallsímans verði búin innrauðum andlitsskanna sem þekkir andlit eiganda og aflæsir símanum aðeins fyrir hann. Um leið verða fingraskanninn og lykilorðin óþörf.
Forrit hugbúnaðarins fyrir aðra græju frá Apple, HomePod, komst í hendur tölvunarfræðinga á dögunum en þar má finna vísanir í aðra tækni og tengingar á milli þeirra. Ekki er vitað hvort forritið hafi verið sent út frá Apple af ásettu ráði svo tæknimenn geti hafist handa við að hanna viðbótarhugbúnað við HomePod, eða hvort kóðanum hafi verið lekið í leyfisleysi.
Tölvunarfræðingarnir sem hafa grafið í kóðanum segja að framhlið nýja símans verði þakin snertiskjá, og að Apple sé þannig að svara keppinautum sínum sem hafa stækkað snertiskjái tækja sinna svo um munar á undanförnum misserum.
Frá þessu er meðal annars greint á vef breska dagblaðsins The Guardian. Gert er ráð fyrir að nýjasta kynslóð iPhone verði síðar á þessu ári.
Ekki er enn komið á hreint hvað nýr iPhone mun heita. Snjallsími Apple varð 10 ára fyrr á þessu ári, eins og Tæknivarpið fjallaði um í Hlaðvarpi Kjarnans, og þess vegna gera græjufíklar og tækniáhugamenn ráð fyrir að síminn muni ekki endilega fylgja hinu hefðbundna raðnúmerakerfi símanna. Þess vegna er ekki víst hvort síminn muni heita iPhone 8, iPhone X eða iPhone 10.
Í kóðanum sem skoðaður var er að finna smámynd af snjallsíma sem er frábrugðin fyrri iPhone-símum. Á smámyndinni virðast allar skjábrúnir símans hafa verið takmarkaðar fyrir utan smá svæði efst þar sem gert er ráð fyrir myndavél, skynjurum og hátalara.
Apple hefur kosið að tjá sig ekki um þennan gagnaleka.