Fylgstu með bensínverðinu á Bensínvakt Kjarnans |
Kannaðu verðið |
Bensínlítrinn kostaði tæplega tveimur krónum minna í júlí en júní, samkvæmt Bensínvakt Kjarnans. Viðmiðunarverðið á íslenskum eldsneytismarkaði var 184,7 krónur á hvern lítra í júlí, miðað við 186,4 krónur í júní.
Bensínlítrinn var dýrastur á þessu ári í arpíl þegar viðmiðunarverðið var 199,9 krónur á hvern lítra. Heilt yfir hefur bensínverð lækkað nokkuð á undanförnum misserum og hefur ekki verið lægra síðan í desember 2009.
Bensínverð er að lækka þrátt fyrir að opinber gjöld á eldsneyti hafi hækkað um áramótin. Þrír liðir opinberra gjalda hækkuðu um áramótin. Það voru almennt bensíngjald sem hækkaði úr 25,6 krónum á lítrann í 26,60 krónur eða um 4,69 prósent, sérstakt bensíngjald sem hækkaði úr 41,30 krónum á hvern lítra í 43,25 krónur á hvern lítra eða um 4,72 prósent og svo kolefnisgjaldið sem hækkaði um 25 aura og er nú 5,50 krónur á hvern lítra. Hlutfallsleg hækkun kolefnisgjaldsins er 4,76 prósent.
Lækkun bensínverðs síðan í apríl má skýra með lægra heimsmarkaðsverði á olíu. Verð á Brent-hráolíu hefur sveiflast nokkuð það sem af er ári, eftir að hafa náð stöðugleika í vetur. Lægst hefur fatið kostað 44,82 dollara í júní og hæst 56,23 dollara í apríl. Verðið hefur hækkað aftur á síðustu vikum og stendur nú í 51,62 dollurum á fatið.
Þumalputtareglan er að verðsveiflur á heimsmarkaðsverði á olíu koma ekki strax fram á Íslandi vegna þess að olíufélögin versla eldsneyti á heimsmarkaði í stórum einingum. Verðið við dæluna hér á landi ætti því að endurspegla heimsmarkaðsverðið þegar eldsneytið var flutt hingað til lands.
Bensínverð á Íslandi skiptist í þrjá meginliði. Það er algengt innkaupaverð, opinber gjöld sem ríkið leggur á eldsneytisverð og hlutur olíufélaga. Opinberu gjöldin breytast lítið á milli mánaða; það er raunar aðeins virðisaukaskatturinn sem getur breyst nema með sérstökum lagabreytingum frá Alþingi. Virðisaukaskatturinn er hlutfallslegur skattur á eldsneytisverð en önnur opinber gjöld sem leggjast á lítraverðið eru föst krónutala sem ákvörðuð er í fjárlögum. Krónugjöldin á bensínverð eru almenn vörugjöld, sérstök vörugjöld og kolefnisgjald.
Lesa má nánar um sundurliðun bensínverðsins á vef bensínvaktarinnar.