Fjórðungur þeirra sem kusu með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra segja Brexit-talsmenn hafa blekkt sig í aðdraganda kosninganna. Þetta kemur fram í nýrri könnun Opinium. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Nærri því einn tíundi þeirra sem kusu útgöngu segjast myndu kjósa að vera áfram í Evrópusambandinu ef kosið yrði á ný. Helmingur allra þeirra sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslunni segja að loforð Brexit-talsmanna - sem lofuðu 350 milljónum punda aukalega á viku í heilbrigðiskerfið – hafi verið heldur eða mjög villandi. 19 prósent kjósenda segja kosningabaráttuna hafa verið sannorða.
Ríkisstjórn Íhaldsflokksins undir forsæti Theresu May hefur ítrekað neitað því að skuldbinda sig við loforðið um auknar fjárveitingar til heilbrigðismála. 26 prósent þeirra sem kusu útgöngu segjast þess vegna hafa verið blekkt af kosningabaráttunni sem barðist fyrir Brexit.
Í könnuninni koma fram miklar áhyggjur Breta af eigin fjárhagi vegna Brexit. 39 prósent svarenda búast við að fjárhagur þeirra eigi eftir að versna á næstu árum. 23 prósent þeirra sem völdu Brexit segjast búast við verri fjárhag á næstu tveimur árum vegna Brexit. Þegar til lengri tíma er litið segjast 31 prósent halda að þeim muni vegna betur eftir 10 ár en 30 prósent svarenda segjast halda að þau muni hafa það verra.
Bretar virðast einnig hafa skipt um skoðun um útgöngu. Ef greidd yrðu atkvæði um það nú myndu 47 prósent kjósenda velja að vera áfram í Evrópusambandinu en 44 prósent ganga út. Fimm prósent segjast ekki vita hvað þau myndu velja, ef marka má niðurstöður Opinium.
Það er hins vegar ekki þar með sagt að Bretar séu sammála um að ný þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Aðeins 39 prósent svarenda í könnuninni segjast vilja fá aðra atkvæðagreiðslu, en 49 prósent segjast ekki vilja það.