Færri ungmenni á aldrinum 12 til 17 ára munu nota Facebook á þessu ári en í fyrra, eða því sem nemur 3,4 prósentum á milli ára, ef marka má spá markaðsgreinandans eMarketer. Frá þessu er greint á vef CNBC.
Ungmennin sækja frekar í Snapchat og Instagram í stað þess að fara á Facebook. Enn fremur mun mánaðarleg notkun barna undir 12 ára aldri og í aldurshópnum 18 til 24 ára vaxa hægar en áður hafði verið spáð, segir eMarketer. Þessi nýja spá gefur vísbendingar um að ungt fólk hafi ekki eins mikinn áhuga á Facebook og áður.
Fjöldi notenda á Facebook hefur aldrei verið meiri en um þessar mundir en á þessu ári urðu notendur meira en tveir milljarðar. Facebook glímir þess vegna við fullorðinsvanda, enda þarf fyrirtækið á unga fólkinu að halda til þess að geta birt því auglýsingar og ala það upp í umhverfinu.
Hegðun ungmenna á Facebook sé að breytast þannig að þau skrá sig sjaldnar inn á samfélagsmiðilinn og eyða skemmri tíma þar en áður. Í staðinn eyða þau tíma á Snapchat og Instagram. Auk þeirra sé að verða til hópur ungs fólks sem aldrei hefur stofnað reikning á Facebook.
Á sama tíma og þetta er að ske vex hópur bandarískra mánaðarnotenda Snapchat hratt, eða um 5,8 prósent á þessu ári. Greiningarfyrirtækið eMarketer jók vaxtarspá sína fyrir Snapchat í öllum aldurshópum nema þeim elsta. Mesti vöxturinn verður að öllum líkindum í aldurshópnum 18 til 24 ára, eða um 20 prósent.
Hið sama má segja um Instagram þar sem hópur bandarískra mánaðarnotenda vex um 23,8 prósent árið 2017. Meðal barna undir 12 ára aldri vex hópurinn um 19 prósent og í hópi unglinga (12 til 17 ára) fjölgar um 8,8 prósent á þessu ári.
Instagram er í eigu Facebook en samfélagsmiðlarisinn keypti myndaforritið á einn milljarð Bandaríkjadala árið 2012 til þess að styrkja markaðshlutdeild sína meðal ungs fólks. Facebook hefur einnig reynt að kaupa Snapchat en stofnendur snappsins höfnuðu þriggja milljarða dala tilboði. Facebook greip þá til þess ráðs að klóna einkenni Snapchat í miðla sína.
Forsvarsmenn Facebook vildu ekki tjá sig fjölmiðla þegar eftir því var leitað.