Kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar í Noregi hefur teygt anga sína yfir landamærin til Svíþjóðar og inn á borð ráðherra þar í landi.
Norski innflytjendaráðherrann og frambjóðandi norska Framfaraflokksins, Sylvi Listhaug, er í heimsókn í Svíþjóð þar sem hún hyggist kynna sér stöðu innflytjenda og læra af svo Norðmenn lendi ekki í sömu aðstæðum og Svíar, sem hún segir að glími við gríðarleg ofbeldisvandamál vegna innflytjenda.
Þessu hefur sænski ráðherra innflytjendamála, Helene Fritzon, hafnað. Vegna málsins aflýsti hún fundi sem ráðherrarnir ætluðu að eiga í dag.
„Það hefur orðið augljóst á síðustu dögum að heimsókn Listhaug er liður í norsku kosningabaráttunni,“ er haft eftir Fritzon á vef norska dagblaðsins VG. „Listhaug virðist vera áhugasamari um að lýsa rangri mynd af Svíþjóð. Það kemur til dæmis skýrt fram í viðtali sem hún veitti VG, að hún telur vera 60 „no-go“ svæði í Svíþjóð, sem er hreint og klárt bull.“
„Ég er til í að hitta kollega minn í norska ráðuneytinu eftir norsku kosningarnar. Í dag vil ég hins vegar ekki taka þátt í kosningabaráttu hennar.“
Hin norska Listhaug sagði í viðtali við VG í morgun að hún ætlaði að heimsækja úthverfi Rinkeby nærri Stokkhólmi og kanna hvað veldur því að „of margir innflytjendur geti ekki aðlagast“.
„Það hafa orðið til samskonar vandamál á 60 öðrum stöðum í Svíþjóð,“ segir Listhaug í viðtalinu. „Þetta eru „no-go“ svæði þar sem orðið hafa til gríðarleg vandamál vegna mislukkaðrar aðlögunar. Þar ráða glæpamenn í stað stjórnvalda. Þetta eru alveg ólýðandi aðstæður.“
Kosningabaráttan í algleymingi
Kosið verður til Stórþingsins í Noregi 11. september næstkomandi. Stjórnarflokkarnir tveir, Hægriflokkurinn og norski Framfaraflokkurinn, hafa starfað í minnihlutastjórn í Noregi síðan í kosningunum 2013 undir forsæti Ernu Solberg.
Sylvi Listhaug er ráðherra innflytjendamála fyrir norska Framfaraflokkinn. Stefna flokksins í innflytjendamálum hefur verið ein sú róttækasta í norsku stjórnmálalandslagi á undanförnum árum. Flokkurinn telur innflytjendastefnu Noregs ekki nógu stranga. Í þessum efnum hefur stefnu flokksins verið líkt við stefnu Svíþjóðardemókrata og Fólksflokksins í Danmörku.
„Ég nenni ekki að ræða röksemdafærslu annara. Innihald er mikilvægast. Þá meina ég að það er mikilvægt fyrir mig að vera hér og sjá og heyra hvernig þetta er,“ segir Listhaug í Rinkeby um frestun fundarins við Fritzon. „Kannski finnst henni það vera bull en ég hef rætt við lögregluna hér sem hefur útskýrt þau verkefni sem bíða þeirra. Hér eru svæði sem lögreglan kemst ekki á nema þungvopnuð.“
„Við erum hér að læra svo við lendum ekki í sömu aðstæðum,“ útskýrir Listhaug.
Erna Solberg segist ekki hafa áhyggjur af þessari uppákomu milli innflytjendaráðherrana. „Við skipuleggjum ekki alltaf fundi þegar við förum í heimsókn yfir landamærin. Ég held að þetta eyðileggi ekki sambandið milli Noregs og Svíþjóðar,“ segir Solberg.
Spurð hvað henni þykir um ummæli ráðherrans um 60 „no-go“ svæði í Svíþjóð varar Solberg ráðherrann við fullyrðingum. „Listhaug verður að passa að það sem hún segir sé í samræmi við það sem stjórnvöld þar í landi segja.“