Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist vera að velta fyrir sér öllum úrræðum sem hann hefur til boða gagnvart Norður-Kóreu í kjölfar eldflaugaskots yfir Japanskar eyjar í morgun.
Tilraunir Norður-Kóreu verða sífellt nærgengari gagnvart nágrönnum Norður-Kóreu. Suður-Kórea og Bandaríkin hafa undanfarna daga haldið árlega heræfingu sína við landamærin á 38. breiddarbaug á Kóreuskaganum. Heræfingarnar hafa ætíð reitt stjórnvöld í Pjongjang til reiði, enda líta þau svo á að hér sé um undirbúning til innrásar að ræða.
Síðan að Kim Jong-un tók við stjórnartaumunum að föður sínum látnum árið 2012 hefur Norður-Kórea gert margar tilraunir með eldflaugar en tilraunaskot yfir grannríkin eru fátíð. Nú er talið að norðurkóreski herinn búi yfir skotflaugum sem geta borið kjarnaodda milli heimsálfa.
„Stjórnvöldin hafa sýnt illvilja sinn gagnvart nágrönnum sínum, gagnvart öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og gagnvart lágmarksstöðlum hegðunar ríkis á alþjóðavettvangi,“ er haft eftir Trump í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu og Reuters greinir frá.
„Ógnandi aðgerðir sem spilla stöðugleika munu aðeins auka á einangrun Norður-Kóreu í heimshlutanum og í heiminum. Allir möguleikar eru nú uppi á borðum,“ segir Trump.
Bandaríkjaforseti ræddi Við Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, og þeir sammæltust um að ógnin frá Norður-Kóreu sé alvarleg og sívaxandi, gagnvart Bandaríkjunum, Japan og Suður-Kóreu.
Lesendum er bent á þrískipta umfjöllun um málefni Norður-Kóreu hér á vefnum.