Bresk stjórnvöld kanna möguleikann á því að ganga til liðs við Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) til þess að forða huganlegu efnahagshruni í kjölfar þess að Bretland gengur úr Evrópusambandinu (ESB) í mars 2019.
Þetta sagði Brexit-ráðherrann David Davis í gær, en hann er staddur í Washington í Bandaríkjunum og sótti fund viðskiptaráðs Bandaríkjanna. Þar hitti hann Geir Haarde, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, sem spurði hann hvort það hafi komið til greina að feta sömu leið og Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein hafa gert í Evrópusamvinnunni.
Frá þessu er greint á vef Politico.
Bretland á nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið um skilnað þeirra sem mun taka formlega gildi í mars 2019. Bretland má þá búast við að tollar og aðrar viðskiptahindranir rísi á landamærum Evrópu gagnvart Bretlandi, enda felur úrsögn úr ESB í sér úrsögn úr sameiginlegum markaði Evrópu og tollabandalaginu.
Bretar leita þess vegna leiða til þess að takmarka neikvæð áhrif þessa á breskt efnahagslíf. Ein þeirra leiða sem hefur nefnd er að Bretland gangi til liðs við EFTA og sækist eftir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá yrði aðgangur Bretlands svipaður og aðgangur Íslands og Noregs er nú.
„Þetta hefur komið til tals en er ekki efst á óskalistanum,“ sagði Davis þegar Geir hafði spurt hann um íslensku leiðina. EFTA-aðild yrði alltaf tímabundin í augum Bretlands.
Í viðræðunum við ESB hefur Bretland sóst eftir að gerður verði eins konar umbreytingarsamningur, tímabundið plagg sem myndi lengja þann tíma sem Bretland hefði til þess að ganga úr ESB. Bresk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að sækja samning sem sniðinn væri að þörfum Bretlands, en ráðamenn í ESB telja EFTA-módelið vera ákjósanlega leið fyrir Bretland.
Bretar telja hins vegar að aðildarviðræður við EFTA þurfi að gerast á sama tíma og viðræður um umbreytingartímabil. Það sé ekki ákjósanleg staða og þess vegna sækjast Bretar fyrst eftir umbreytingartímabilinu.