Norður-Kórea hefur brugðist við viðskiptaþvingununum sem samþykktar voru í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á mánudaginn, með hefðbundnum yfirlýsingum um að nú myndu stjórnvöld spýta í lófana og efla þróun kjarnavopna norðursins.
Öryggisráðið samþykkti samhljóða að herða viðskiptaþvinganir á hið einangraða ríki á norðurhluta Kóreuskagans vegna sjöttu og lang stærstu kjarnorkutilraun þeirra. Samanburður gervitunglamynda af yfirborði fjallsins sem notað var sem tilraunastöð fyrir vetnissprengjuna sem sprengd var 3. september síðastliðin, sýnir að kraftur sprengjunnar hefur hnikað til landi og sent af stað jarðskriður.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna hefur sagt þessar ákvarðanir öryggisráðsins um að herða þvinganir of smá skref í þeirri vegferð að þvinga Norður-Kóreu til þess að hætta kjarnorkuvopnabrölti.
Upphafleg tillaga Bandaríkjanna var mun harðorðari og skilyrtari en sú tillaga sem öryggisráðið samþykkti að lokum. Tillagan var linuð til þess að afla mætti stuðnings Kína og Rússlands, helstu viðskiptaríkja Norður-Kóreu. Upphafleg tillaga gerði ráð fyrir að olíuútflutningur til Norður-Kóreu yrði bannaður, en Kína selur lang mest af þeirri olíu sem brennd er í Norður-Kóreu.
Öryggisráðið ákvað á mánudag að banna útflutning textílvara frá Norður-Kóreu og setja hámark á magn eldsneytis sem hægt væri að selja til norðursins. Þá er orðið ólöglegt fyrir erlend fyrirtæki að eiga í viðskiptasamstarfi með norðurkóreskum stofnunum.
Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu hefur sagt viðskiptaþvinganirnar vera í andstöðu við alþjóðleg réttindi ríkja til þess að vernda sjálft sig. Þvinganirnar væru þess vegna til þess að „kæfa ríkið og þjóðina algjörlega með algerum efnhagslegum hindrunum“.
„Alþýðulýðveldið Kórea mun tvíefla kraftinn sem fer í að standa vörð um fullveldi landsins og tilvistarrétt og viðhalda friði og öryggi heimshlutans,“ sagði í yfirlýsingu norðurkóreskra stjórnvalda.
Han Tae Song, sendifulltrúi Norður-Kóreu gagnvart Sameinuðu þjóðunum í Genf í Sviss, sagði stjórnvöld í Norður-Kóreu vera tilbúin að nota hvaða ráð sem er. „Þær aðgerðir sem gripið verður til munu valda Bandaríkjunum mesta sársauka sem landið hefur nokkru sinni fundið.“