Norðurkóresk stjórnvöld hafa sagt rússneskum fulltrúum að þeir búi yfir langdrægum skotflaugum sem drífa 3.000 kílómetra. Þessar skotflaugar muni geta hitt skotmark á landsvæði Bandaríkjanna eftir uppfærslur.
Þetta er haft eftir þingmanninum Anton Morozov í rússnesku fréttaveitunni Interfax. Morozov var staddur í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, dagana 2. til 6. október síðastliðinn í opinberum erindagjörðum.
Norður-Kórea hefur gert margar tilraunir með eldflaugar og kjarnorkusprengjur á undanförnum misserum. Leyniþjónustur vestrænna ríkja telja að þessi vopn geti hugsanlega dregið alla leið til Bandaríkjanna, eða muni geta gert það þegar þróun þeirra lýkur. Enn er hins vegar óvíst hver raunveruleg geta stjórnvalda í Pjongjang er.
Það hefur þó ekki komið í veg fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í garð Bandaríkjanna og helstu bandamanna í Asíu.
Haft var eftir Morozov að Norður-Kórea hyggist reyna að auka drægni skotflauga sinna þrefalt, eða í 9.000 kílómetra radíus. „Það var ekkert rætt um tímamörk á því verkefni,“ sagði hann.
Ítarlega var fjallað um kjarnorkuáætlun og óvild Norður-Kóreu í garð hins vestræna heims í þrískiptri fréttaskýringu í sumar.
Kóreska vandamálið
- Hvers vegna er ástandið svona? (16. júlí 2017)
- Allt hefur mistekist (17. júlí 2017)
- Hvað er til ráða? (18. júlí 2017)