Nærri því helmingur kjósenda ætlar að greiða annað hvort Vinstri grænum eða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi. Nýjasta kosningaspáin mælir Vinstri græn enn sem vinsælasta framboðið í kosningunum með 26,2 prósent fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með stuðning 21,4 prósent kjósenda í dag, litlu minna en hann var með í kosningaspánni 7. október síðastliðinn. Kosningaspáin er unnin af Baldri Héðinssyni stærðfræðingi í samvinnu við Kjarnann í aðdraganda kosninganna. Hægt er að leas nánar um kosningaspána í kosningamiðstöð Kjarnans.
Þrjár kannanir eru hafðar til grundvallar nýjustu kosningaspánni og fá þær allar svipað vægi. Það hefur vakið athygli að könnun Fréttablaðsins sem birt var í morgun sýndi allt aðra niðurstöðu en könnun MMR sem birt var síðdegis. Það má eflaust að miklu leyti skýra með því að benda á mismunandi aðferðafræði við gerð kannana. Könnun Fréttablaðsins var gerð á einum degi, og 804 svöruðu könnuninni. Könnun MMR var gerð á lengri tíma, dagana 6. til 11. október.
Kosningaspáin vigtar niðurstöður þessara kannana í takt við aðferðafræðina sem býr að baki könnununum og miðar við sögulega nákvæmni könnunaraðila samanborið við úrslit kosninga hverju sinni. Fylgissveiflurnar í kosningaspánni eru þess vegna ekki eins dramatískar og í niðurstöðum einstakra kannana, en gefa skýrari mynd af þróun fylgissveiflanna.
Stjórnarflokkarnir tapa enn
Þeir þrír flokkar sem starfað hafa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn á undanförnum árum tapa mestu fylgi í kosningaspánni í ár. Framsóknarflokkurinn starfaði með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn á árunum 2013-2016. Flokkurinn mælist nú með aðeins 5,9 prósent fylgi.
Viðreisn og Björt framtíð hafa svo starfað með Sjálfstæðisflokknum í Stjórnarráðinu undanfarna mánuði. Björt framtíð mælist nú með 3,4 prósent fylgi og Viðreisn með 3,3 prósent.
Á sama tíma hafa nýju stjórnmálaöflin Miðflokkurinn og Flokkur fólksins ítrekað fengið meiri stuðning í könnunum en samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins. Miðflokkurinn hefur enn ekki gefið út stefnuskrá en mælist samt sem áður með 9,8 prósent stuðning. Flokkur fólksins mælist nú með 7,4 prósent.
Samfylkingin sækir enn í sig veðrið og er nú með stuðning 11,1 prósent kjósenda miðað við kosningaspána. Píratar halda áfram að tapa fylgi og eru með 9,9 prósent fylgi.
Kosningaspáin var raunar gerð tvisvar í dag, fyrst var hún uppfærð í takt við nýjustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem birt var í Fréttablaðinu í morgun. MMR birti svo könnun sína síðdegis og þá var kosningaspáin gerð aftur með nýjustu gögnunum.
Í línuritinu hér að ofan er staðan í kosningaspánni í dag merkt tvisvar, en dagsetning fyrri útgáfunnar merkt 10. október til þess að gera framsetningu gagnanna skýrari.
Nánar má lesa um framkvæmd kosningaspárinnar í kosningamiðstöð Kjarnans eða á vef Baldurs Héðinssonar kosningaspá.is. Þar má einnig lesa í þingsætaspána, þar sem líkur á því hvort frambjóðendur nái kjöri eða ekki eru reiknaðar.
Þær kannanir sem kosningaspáin byggir á 11. október 2017 eru:
- Skoðanakönnun MMR 26. – 28. september (vægi 36,3%)
- Skoðanakannanir Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 2-3. okt og 10. okt (vægi 34,3%)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 2. – 6. október (vægi 29,4%)