Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð eru bæði með 22,8 prósent fylgi í nýjustu kosningaspánni sem gerð var í dag 21. október, þegar aðeins ein vika er til kosninga.
Vinstri græn hafa verið stærsti flokkurinn í kosningaspánni alveg síðan ríkisstjórnin sprakk fyrir rúmum mánuði síðan og Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið næst stærstur.
Ástæða þess að flokkarnir eru jafnir nú skýrist aðallega af síminnkandi stuðningi við Vinstri græna á undanförnum dögum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki haft meiri stuðning síðan 4. október þegar fylgið var 23,2 prósent.
Ef þetta yrðu úrslit Alþingiskosninganna eftir viku yrði það versta kosning Sjálfstæðisflokksins síðan flokkurinn var stofnaður 1929. Flokkurinn hlaut 29 prósent atkvæða í kosningunum í fyrra. Versta útkoma flokksins til þessa var í kosningunum vorið 2009 þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 23,7 prósent atkvæða.
Björt framtíð horfin
Önnur tíðindi í nýjustu kosningaspánni eru að Björt framtíð hefur nánast horfið af sviðinu og er nú með 1,5 prósent stuðning. Viðmiðið í kosningaspánni er að reikna aðeins spá fyrir þau framboð sem fá meira en tvö prósent, en ákveðið var að hafa Bjarta framtíð með til þess að sýna fylgishrunið.
Björt framtíð starfaði með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Sú ríkisstjórn hafði aðeins eins manns meirihluta. Björt framtíð ákvað að segja sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu um miðjan síðasta mánuð vegna þess sem kallað var trúnaðarbrestur í samstarfinu.
Trúnaðarbresturinn var að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, upplýsti ekki samstarfsmenn sína í ríkisstjórninni að faðir hans hefði undirritað meðmælabréf fyrir uppreist æru dæmds barnaníðings. Þær upplýsingar voru aðeins látnar þeim Óttarri Proppé, formanni Bjartar framtíðar, og Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, í té þegar ljóst var að fjölmiðlar hefðu komist á snoðir um málið.
Bæði Björt framtíð og Viðreisn guldu fyrir samstarfið í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum og stjórnarslitin í skoðanakönnunum framan af. Innan Viðreisnar var ákveðið að láta Benedikt af sem formann og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við þeim skyldum í síðustu viku. Síðan þá hefur fylgi Viðreisnar vaxið. Viðreisn mælist nú með 5,9 prósent stuðning.
Björt framtíð hefur ekki tekið eins dramatísk skref í kosningabaráttunni. Sífellt færri virðast þess vegna ætla að kjósa Bjarta framtíð í kosningunum eftir viku.
Um kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin var unnin að morgni laugardagsins 21. október. Kosningaspáin er hugarfóstur Baldurs Héðinssonar stærðfræðings sem heldur úti vefnum kosningaspá.is. Þær kannanir sem liggja nýjustu kosningaspánni til grundvallar eru eftirfarandi.
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 16. – 19. október (vægi 35,2%)
- Þjóðarpúls Gallup 13. – 19 október. (vægi 28,0%)
- Skoðanakönnun MMR 17. – 18. október (vægi 22,8%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 16. okt (vægi 14,0%)