Sandra Baldvinsdóttir, sem var settur dómari í máli þar sem Benedikt Bogason, núverandi hæstaréttardómari, hefur stefnt Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, fyrir meiðyrði, hefur ákveðið að víkja sæti í málinu.
Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Jóns Steinars, gerði þá kröfu í gær að Sandra myndi víkja sæti vegna vanhæfis á þeim grundvelli að hún sé í stjórn Dómarafélags Íslands og á síðasta aðalfundi félagsins, sem og í fjölmiðlum eftir fundinn, hafi þáverandi formaður þess, Skúli Magnússon, sett fram sjónarmið sem séu þess valdandi að Jón Steinar geti dregið óhlutdrægni hennar í efa.
Það gerði Sandra síðdegis í dag og í niðurstöðu hennar segir að í ljósi þess að ummælin hafi Skúli sett fram sem formaður Dómarafélags Íslands, sem dómari málsins var hluti af, séu fyrir hendi réttmætar ástæður fyrir Jón Steinar að draga hæfi dómarans í efa.
„Dómsmorð“
Aðdragandi málsins er sá að í bók sinni „Með lognið í fangið - um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ sem Jón Steinar gaf út í nóvember í fyrra gagnrýnir hann Hæstarétt harðlega og fullyrðir að dómurinn hafi brugðist þjóðinni við meðferð dómsmála í kjölfar efnahagshrunsins.
Í kjölfarið stefndi Benedikt Jóni fyrir meiðyrði og gerir kröfu upp á tvær milljónir auk vaxta í miskabætur sem hann hyggst láta renna til góðgerðarmála vinnist málið, sem og um málskostnað.
Vanhæf vegna skoðana formanns Dómarafélagsins?
Í ræðu sinni á umræddum aðalfundi, sem haldinn var þann 24. nóvember 2017, sagði Skúli meðal annars að Jón Steinar hafi verið einn þeirra sem harðast hafi gengið fram í umræðu í fjölmiðlum um fjármál dómara. „Hvort Jón Steinar tók þátt í því að skipuleggja þessar aðgerðir frá grunni eða hvort hann samsamaði sig þeim, þegar hann varð þess áskynja, verður hann að svara sjálfur fyrir. Hver og einn getur einnig svarað því hvort og með hvaða hætti framganga Jóns Steinars var samræmanleg siðferðislegum skyldum hans sem starfandi lögmanns sem og skyldum hans sem fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands. Ekki síst ætti Jón Steinar að reyna að gera það sjálfur,“ sagði Skúli. Um dómsmálið sem Benedikt hafði þá þegar efnt til gegn Jóni Steinari sagði Skúli að ekki væri furðulegt þótt tiltekinn dómari, þ.e. Benedikt, hafi misst þolinmæðina og ákveðið að nota það úrræði sem lögin bjóða honum, að höfða meiðyrðamál vegna alvarlega ávirðinga um störf hans og annarra dómara í tilteknu dómsmáli, í ljósi þess að dómarar séu í afar þröngri stöðu til að tjá sig opinberlega og verjast ómálefnalegum málflutningi og röngum ásökunum. „Og auðvitað má gagnrýna dómstóla og úrlausnir þeirra og jafnvel dómarana sjálfa. Það er hins vegar munur á gagnrýnni umræðu og svo hreinni niðurrifsstarfsemi.“
Lögmaður Jóns Steinars vísaði einnig í orð Skúla Magnússonar í kvöldfréttum RÚV sama dag, þar sem hann sagði að ef fjölmiðlar eða aðrir sæju ekki um að hreinsa svona óhróður upp þannig að hann dæmi sig í raun og veru sjálfur þá hljóti dómarar á einhverjum tímapunkti að grípa til viðbragða sem þeir hafi þá samkvæmt lögum og „ég lýsi ákveðnum skilningi á því,“ sagði Skúli.
Lögmaður Jóns Steinars sagði Söndru hafa setið í stjórn félagsins undir forystu Skúla sem formanns og geri enn eftir formannsskipti sem urðu á aðalfundinum. Hann viti ekki til þess að Sandra hafi gert neinar athugasemdir við framangreind orð Skúla Magnússonar, hvorki á aðalfundinum sjálfum né opinberlega síðar á öðrum vettvangi og því hafi Jón réttmætar ástæður til að ætla að orð Skúla endurspegli viðhorf þeirra sem með honum sátu í stjórn félagsins, þar með talin Sandra.