Landsréttur kvað rétt í þessu upp þann úrskurð sinn að Arnfríður Einarsdóttir væri ekki vanhæf og þurfi þar af leiðandi ekki að víkja sæti í máli er snýr að umferðarlagabroti.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður hafði gert þá kröfu að Arnfríður viki sæti vegna vanhæfis á þeim grundvelli að í ljósi annmarka á skipun dómara í Landsrétt samkvæmt dómum Hæstaréttar hefði ákærði í málinu réttmæta ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni og sjálfstæði dómarans.
Þessari beiðni var sem fyrr segir hafnað og situr Arnfríður því áfram.
Vilhjálmur var staddur erlendis í dag og því mætti Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður í hans stað. Sveinn óskaði fyrir hönd Vilhjálms eftir fresti til að taka afstöðu til þess hvort úrskurðurinn yrði kærður til Hæstaréttar, en til þess hefur hann þriggja sólarhringa frest.
Arnfríður uppfyllir og uppfyllir enn almenn hæfisskilyrði
Í niðurstöðu Landsréttar kemur meðal annars fram að Alþingi hafi samþykkt skipun dómaranna, í einu lagi. Á þeim grundvelli hafi Arnfríður verið skipuð dómari af forseta Íslands. Skipunin sé ótímabundin og henni verði ekki haggað. Þá liggi fyrir að Arnfríður uppfylli og uppfyllti við skipunina almenn hæfisskilyrði samkvæmt lögum um dómstóla. Sem skipuðum dómara beri henni að rækja þann starfa sem embættinu fylgir í samræmi við stjórnarskránna. Þá njóti hún sjálfstæðis í embættisathöfnum sínum, meðal annars gagnvart ráðherra sem gerði tillögu um skipan hennar í embættið.
Fram kemur að dómarar skuli að sjálfsdáðum gæta að hæfi sínu til að fara með mál og leysa með úrskurði kröfu um að hann víki sæti sökum vanhæfis. „Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess. Jafnframt sé tilgangur þeirra sá að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.“ Þannig birtist í hæfisreglum útfærsla á þeirri skyldu löggjafans samkvæmt stjórnarskránni að setja skýrar reglur um hvenær dómari verði talinn vanhæfur í máli. Sú skylda grundvallist á skilyrði ákvæðisins um óhlutdrægan dómstól, en það feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, sem ásamt áskilnaði þess um óháða dómstóla sé undirstaða þess að maður geti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir þeim.
Ekki deilt um persónulega afstöðu Arnfríðar í málinu
Þannig þurfi atvik eða aðstæður að vera fyrir hendi sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómarans í efa. Ekki hafi verið byggt á því að persónuleg afstaða Arnfríðar til ákærða eða efnis máls hafi verið með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hennar í efa. Heldur hafi ákærði byggt á því að í ljósi annmarka á skipun dómara í Landsrétt samkvæmt dómum Hæstaréttar, hafi hann réttmæta ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni hennar og sjálfstæði. Þannig séu annmarkarnir þess eðlis að hún sé ekki með réttu handhafi dómsvalds og því ekki bær til að fara með málið.
Þá er rakin lagaumgjörðin í kringum skipan dómara, að dómnefndin meti hæfni umsækjenda og láti ráðherra í té umsögn um umsækjendur. Ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd teldi ekki hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum, nema ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um annan umsækjanda.
Málið hafi verið lagt fyrir Alþingi, líkt og kveðið er á um í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum um dómstóla, þar sem fram kemur að í ljósi þess að skipaðir yrðu 15 dómarar í þetta sinn við upphaf Landsréttar væri eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins valdahafa ríkisvalds að því.