Fulltrúar samninganefndar ASÍ hafa að undanförnu, og nú síðast í dag, fundað með SA og stjórnvöldum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna endurskoðunar kjarasamninga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ rétt í þessu.
Jafnframt segir að fulltrúar ASÍ í forsendunefnd telja að forsendur kjarasamninga sé brostnar en þegar sú staða kemur upp ber aðilum að leita viðbragða hjá gagnaðila og/eða stjórnvöldum til að kanna hvort vilji sé til þess að koma til móts við aðila vegna forsendubrestsins. Nú er beðið viðbragða við þessum málaleitunum en endanleg afstaða til framhaldsins verður tekin á miðvikudaginn.
Miðstjórn ASÍ fundaði vegna málsins í síðustu viku en samkvæmt ákvæði í samningunum koma þeir til endurskoðunar fyrir lok þessa mánaðar.
Í samtali við Kjarnann þann 21. febrúar síðastliðinn segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ að málið væri enn í skoðun. Miðstjórn ASÍ hafi ákveðið að boða til formannafundar aðildarfélaga sambandsins miðvikudaginn 28. febrúar þar sem fjallað verður um stöðuna og ákvörðun tekin um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar.
Gylfi segði að ákvarðanir lægju í höndum formanna aðildafélaga ASÍ og að ljóst sé að fundarboðið sé vegna þess að mat ASÍ sé að forsendur kjarasamninga séu brostnar. „Enn er verið að vinna í þessum málum en matið á stöðunni er svona,“ segir hann.
Hann bætti því við að hægt væri að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru komnar og að enn væri tími og rúm til viðbragða af hálfu stjórnvalda áður en endanleg ákvörðun verði tekin.