Sólveig Anna Jónsdóttir og B-listinn í Eflingu vilja segja upp samningum og undra sig á að Efling hafi ekki boðað til almenns félagsfundar til að ræða stöðuna.
Þetta skrifaði Sólveig Anna á Facebook síðu framboðsins í morgun.
„Þegar sú staða kemur upp í samfélagi, fyrst og fremst vegna óstjórnlegrar ásælni yfirstéttarinnar í sífellt meiri efnahagsleg gæði og þar með meiri völd, að verkafólk og láglaunafólk byrjar að æsa sig, bæði vegna slakrar stöðu sinnar og yfir lúxuslífi þeirra sem kunna ekki að skammast sín, er (nú til dags) talað um Forsendubrest,“ skrifar Sólveig Anna.
Hún segir forsendubrest þýða að þau, vinnuaflið séu orðin svo fúl og pirruð að það búi til samfélagslegt vesen og verkalýðsforkólfarnir í Guðrúnartúni verði því að stíga fram og krefjast þess að gripið verði til aðgerða.
„Í orðinu Forsendubrestur býr því eitthvað agnarlítið af svakalegum krafti verkafólks, því ómælanlega afli sem svo sjaldan er notað. Síðustu áratugir hafa jú farið í að telja okkur trú um að best sé fyrir alla að verkafólk beisli mátt sinn, að við hættum að nota hann og leyfum öðrum að sjá alfarið um að skipuleggja tilveru okkar í stigveldinu sem samfélagið er. Máttur vinnuaflsins hefur því verið lokaður inní allskonar orðum, eins og Þjóðarsátt, Stöðugleiki, Þjóðarskúta, Launaskrið og svo framvegis, og svo auðvitað inní hreyfingunni sjálfri, þar sem fulltrúar okkar, fólkið sem er í vinnu (hjá okkur) við að gæta kjara okkar, hefur gengist undir hugmyndir nýfrjálshyggjunnar um að best sé fyrir alla að verðleggja vinnuaflið eins lágt og hægt er, enda muni tilraunasérfræðingar brauðmolavísindanna í kjölfarið búa til svo gott og skemmtilegt samfélag að enginn þurfi að kvarta.“
Hún segir þau nú sjá, alveg skýrt, að þau geti, með því að beita bara ögn af krafti sínum og með því að frelsa örlítið af löngunum í réttæti, sannarlega ruggað fjandans stöðugleikabátnum svo eftir því sé tekið. Allt tal um forsendubrest nú sé sönnun á því sem þau, vinnuaflið, hafi. Sólveig segir þessa stund, stund forsendubrestsins, eigi að hvetja þau til dáða í baráttunni fyrir réttlæti og jöfnuði, nú ríði á að láta ekki deigan síga, nú sé sóknarfæri.
„Þegar við, láglauna og verkafólk, segjumst ekki lengur ætla að bera ábyrgð á stöðugleika í lífi hinna auðugu erum við með öðrum orðum að segja: Hér hefur orðið Forsendubrestur og við viljum hann leiðréttann, án undanbragða og án þeirra miklu málamiðlana sem þau sem samið hafa fyrir okkar hönd gera alltaf, á kostnað okkar.“
Sólveig segir þau því vilja koma því á framfæri, skýrt og án málalenginga að þau sem manna B – listann telja augljóst að segja skuli upp kjarasamningum ef atvinnurekendur, ríki og sveitafélög fást ekki til að viðurkenna óréttlætið og arðránið sem fengið hefur að grassera á Íslandi.
„Ef kjör okkar eru ekki leiðrétt með tilliti til æðisgenginna hækkana á launum þeirra sem verma þægilegustu sæti þjóðfélagsins (nýjasta dæmið er sturlaðar hækkanir á launum toppa Landsvirkjunar) hefur orðið augljós og óumdeilanlegur Forsendubrestur.“
Hún segir til lítils að vera með uppsagnarákvæði vegna forsendubrests í kjarasamningum ef ekki eigi að nýta þau þegar augljóst er orðið, enn á ný, að þau hafi verið höfð að fíflum, að í miðju góðærinu á Guð-blessi-Íslandi streymi allur auður upp og að verkafólk eigi að láta sér nægja að hringla í klinkinu í úlpuvasanum, enn eina ferðina.
„Forsendur eru augljóslega brostnar og við ætlum ekki að sætta okkur við það. Við krefjumst lagfæringar á kjörum okkar og spyrjum: Er eftir einhverju að bíða?“
Sólveig Anna segir að síðustu að þau á B-listanum undrist að stjórn Eflingar skuli ekki hafa boðað til opins félagsfundar með meðlimum verkalýðsfélagsins vegna stöðunnar sem upp er komin í tengslum við kjarasamninga. Hún spyr hvers vegna stjórn félagsins telji ekki bráðnauðsynlegt að kalla eftir afstöðu og skoðunum alls þess mikla fjölda sem greiði samviskusamlega meðlimagjöld sín mánaðarlega og geri með því starfsemi Eflingar mögulega.
„Hver önnur er við sem stritum á vinnumarkaðnum eigum að stýra þeim ákvörðunum sem teknar eru? Aftur sannast að forysta félagsins hefur lítinn sem engan áhuga á að vera í tengslum við meðlimi, þrátt fyrir að sjaldan hafi verið eins mikil þörf á því að raddir verkafólks fái að heyrast hátt og skýrt.“