Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöður á formannafundi ASÍ í dag gríðarleg vonbrigði. Samkvæmt þeim halda almennir kjarasamningar fram að áramótum en á fundinum voru greidd leynilega atkvæði um uppsögn á samningunum.
„Mér finnst við vera að veikja okkar stöðu gríðarlega. Það eru mikil vonbrigði að við skyldum ekki standa saman um að segja upp samningunum þegar forsendur eru brostnar,“ segir Ragnar í samtali við Kjarnann. Hann spyr sig hvers vegna eigi að hafa forsendur ef samningum er ekki sagt upp þegar þessar sömu forsendur eru brostnar.
Hann segist skilja smærri félögin sem hafna því að segja upp samningum. „En þarna hefðum við haft mikið og gott tækifæri til þess að standa í lappirnar, sérstaklega vegna þess sem á undan er gengið og mun ganga á næstu vikur og mánuði þegar fyrirtækin byrja að birta sína reikninga,“ segir hann.
Næst á dagskrá er að setjast niður með baklandi VR, að sögn Ragnars, og búa til kröfugerð. „Það er ekkert annað sem við getum gert nema vinna vinnuna og vera tilbúin fyrir áramót. Sjá hvort okkar kröfugerðir stemmi við aðra,“ segir hann.
Alls greiddu 49 fulltrúar atkvæði en þar af vildi 21 segja samningunum upp en 28 að þeir héldu gildi sínu. Hins vegar eru vægi þeirra fulltrúa sem greiddu atkvæði með því að segja samningunum upp töluvert meira en þeirra sem vildu að þeir héldu sér, eða 66,9 prósent gegn 33,1 prósenti.