Stjórnarandstöðuflokkarnir ræða nú sín á milli um möguleika þess að leggja fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra, vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu svokallaða. Þetta herma heimildir Kjarnans.
Allir stjórnarandstöðuflokkarnir eru nú að íhuga málið eftir fund þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar í morgun. Formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar munu funda um málið, líklega á morgun, og taka ákvörðun um hvort tillagan verður lögð fram síðar um daginn og þá tekin fyrir á fimmtudag. Eða hvort hún verður lögð fram á fimmtudag og þá ekki tekin fyrir fyrr en mánudaginn 19. mars, þar sem næsta vika er nefndavika.
Ástæða þess að flokkarnir íhuga að bíða með að leggja tillöguna fram er sú að tveir þingmenn Vinstri grænna, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, eru á leið úr landi á næstu dögum. Bæði tvö lýstu sig andvíg ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsókn þegar stjórnin var mynduð í nóvember. Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja ríka áherslu á að þau Rósa og Andrés séu bæði viðstödd atkvæðagreiðsluna um vantraust.
Bréfs Umboðsmanns Alþingis var beðið sérstaklega en hann skilaði því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á föstudag. Greint var frá efni bréfsins í forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun og fór sú framsetning fyrir brjóstið á ýmsum í stjórnarandstöðunni, samkvæmt viðmælendum Kjarnans.
Lestu um bréf umboðsmanns hér.
Þar kom fram að hann myndi ekki hefja frumkvæðisrannsókn á málinu í ljósi yfirstandandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um málið. Hann gerði hins vegar nokkrar veigamiklar athugasemdir við málsmeðferðina, meðal annars þá að hann teldi að sá tveggja vikna frestur, sem ráðherra hefur ítrekað borið við að hafi haft áhrif á möguleika hennar til að rannsaka málið, hafi ekki átt við í því tilfelli.
Að auki benti hann sérstaklega á skyldu sérfræðinga ráðuneytisins til að veita ráðherra ráðgjöf, til að tryggja að ákvarðanir hans séu lögum samkvæmt og að öll stjórnsýsla ráðherra og ráðuneytis sé í samræmi við ólögfesta réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Ráðherra hafi í þessu tilviki verið veitt sú ráðgjöf. Eins og kunnugt er vöruðu minnst þrír sérfræðingar ráðuneytisins Sigríði ítrekað við því að breytingar á lista Landsréttardómara og sá ófullnægjandi rökstuðningur sem þeim breytingum fylgdi gæti verið brot á stjórnsýslulögum, eins og síðar kom á daginn.
Kjarninn hefur greint ítarlega frá þeirri réttarfarslegu óvissu sem uppi er vegna skipana Sigríðar á fjórum dómurum við Landsrétt, sem voru ekki taldir meðal þeirra hæfustu að mati dómnefndar. Tveir þeirra sem urðu af dómarasæti vegna þessarar ákvörðunar hafa þegar fengið miskabætur vegna þess sem Hæstiréttur taldi brot Sigríðar á stjórnsýslulögum og hinir tveir hafa báðir höfðað mál og gætu átt kröfu á tugmilljóna skaðabótum takist þeim að sýna fram á tjón sitt.
Þá hefur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson krafist þess fyrir Landsrétti að einn dómaranna, sem valdir voru án þess að teljast meðal þeirra hæfustu, víki sæti vegna vanhæfis á grundvelli þess með hvaða hætti staðið var að skipun dómarans. Því var hafnað af dómaranum sjálfum og hefur sú niðurstaða verið kærð til Hæstaréttar. Gert er ráð fyrir því að Hæstiréttur skili niðurstöðu sinni í málinu í þessari viku. Vilhjálmur hefur lagt fram sambærilegar kröfur í málum tveggja annarra Landsréttardómara, og eru þau nú í meðförum dómstólsins. Fari svo að dómaranum verði gert að víkja er ljóst að engum þessara fjögurra dómara er sætt áfram í sínu embætti og munu allar þeirra embættisfærslur vera í lausu lofti. Þá er ekki ólíklegt að jafnvel þótt Hæstiréttur telji dómarann ekki þurfa að víkja, að málinu verði skotið áfram til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem gæti tekið nokkur ár að komast að niðurstöðu. Hvernig sem fer er ljóst að réttaróvissan verður umtalsverð.
Dómarinn sem um er rætt er Arnfríður Einarsdóttir, eiginkona Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem steig úr oddvitasæti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður, fyrir Sigríði Á. Andersen og samkvæmt kæru Vilhjálms til Hæstaréttar, varð þar með af möguleikanum á ráðherrasæti.