Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, segir fyrirtækið bera ábyrgð á að ráðgjafa- og greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica hafi komist yfir gögn um 87 milljóna notenda Facebook. Þetta kom fram við yfirheyrslur bandarísku öldungadeildarinnar í gær og greint var frá í The Guardian.
Yfirheyrslurnar stóðu yfir í fimm klukkutíma og skiptust 44 öldungadeildarþingmenn á að spyrja Zuckerberg spurninga en þær snérust um Facebook og friðhelgi einkalífsins. Í dag munu yfirheyrslurnar svo halda áfram en þá kemur Zuckerberg fyrir fulltrúadeildarþingmenn sem sitja í orku- og viðskiptanefnd.
Kveikjan að yfirheyrslunum er afhjúpun Channel 4 á vinnubrögðum Cambridge Analytica. Afhjúpunin hefur leitt í ljós að Cambridge Analytica hefur notað gögn frá Facebook í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningar víða um heim. Fyrirtækið hefur upplýsingar um 87 milljónir notenda Facebook.
Markaðsvirði Facebook, sem hefur farið lækkandi síðustu vikur, hækkaði um 4,5 prósent í gær vegna yfirheyrslanna. Zuckerberg hefur hlotið mikla gagnrýni eftir að upp komst um málið en miðað við frammistöðu gærdagsins virðist almenningsálitið fara vaxandi á ný.
Gátu ekki útilokað Cambridge Analytica
Stjórnendur Facebook vissu fyrst af notkun Cambridge Analytica árið 2015 en Zuckerberg sagði snemma í yfirheyrslunum að samfélagsmiðilinn hefði ekki getað útilokað fyrirtækið frá Facebook því það er ekki auglýsingaaðili.
Eftir hlé leiðrétti hann sig hins vegar og sagði að Cambridge Analytica hefði verið auglýsingaaðili á Facebook árið 2015 og að það hefði verið mistök að banna fyrirtækið ekki strax frá því að auglýsa á Facebook.
Beinskeyttar spurningar þingmanna
Þingmenn spurðu töluvert einfaldra spurninga um virkni samfélagsmiðilsins en þau hlífðu Zuckerberg þó ekki og spurðu margir beinskeyttra spurninga um friðhelgi einkalífsins og söfnun gagna.
Dick Durbin þingmaður demókrata spurði Zuckerberg hvort hann væri tilbúinn til að deila því á hvaða hóteli hann gisti í nótt. Zuckerberg kvaðst ekki vilja gera það. Durbin spurði hann því næst hvort hann vildi deila því hverjum hann hefði sent skilaboð í vikunni en Zuckerberg vildi ekki heldur deila því á svo opinberum vettvangi.
Bill Nelson þingmaður demókrata talaði ekki undir rós til Zuckerberg. „Ég skal draga þetta saman fyrir þig. Ef Facebook og aðrir samfélagsmiðlar taka sig ekki saman í andlitinu mun enginn njóta friðhelgi einkalífsins lengur. Ef Facebook og aðrir samfélagsmiðlar geta ekki varist árásum, þá verðum við að gera það. Við sem sitjum á þingi,“ sagði Nelson.
Repúblikaninn John Kennedy fór ekki mjúkum höndum um Zuckerberg og sagði honum að fara heim og skrifa notendaskilmálana aftur. Skilmálarnir væru eingöngu gerðir til þess að forða Facebook frá málsóknum en ekki til að upplýsa notandann. Seinna spurði Ron Johnsson hann að því hvort hann vissi hversu margir lesa skilmálana. Zuckerberg sagðist ekki vita það en að allir hefðu tækifæri til þess að lesa þá.
Ted Cruz öldungadeildarþingmaður repúblikana og fyrrverandi forsetaframbjóðandi mætti einnig til yfirheyrslanna. Fjallað hefur verið um Cruz í fréttum en framboð hans keypti ráðgjöf hjá Cambridge Analytica í forvals kosningum repúblikana fyrir forsetakosningarnar 2016.
Opinn fyrir löggjöf um gagnasöfnun samfélagsmiðla
Rauður þráður í gegnum yfirheyrslurnar voru spurningar um löggjöf um gagnasöfnun og samfélagsmiðla. Zuckerberg virtist opinn fyrir því en ítrekaði að útfærsla laganna skipti miklu máli. Hann svaraði að það væri ekki spurning um hvort þörf væri á löggjöf heldur hvernig löggjöf væri. Hún þarf að vera rétt, að hans mati.
Edward Markey þingmaður demókrata spurði hvort hann myndi styðja lög sem segja að Facebook, og önnur fyrirtæki sem safna upplýsingum, þyrfti að fá leyfi til að safna upplýsingum, áður en þær séu notaðar í eitthvað annað. Zuckerberg svaraði að almennt teldi hann þetta vera réttu hugmyndina að lögum en ef hann myndi styðja löggjöf sem þessa þá skiptu smáatriðin miklu máli.
Kosningar á árinu forgangsmál
Zuckerberg sagði enn fremur í yfirheyrslunum að kosningar víða um heim á árinu yrðu forgangsmál hjá Facebook. Hann sagði að fyrirtækið hefði verið að rannsaka aðkomu Rússa að fyrri kosningum og að í forgangi væri að fyrirbyggja að óprúttnir aðilar hefðu áhrif á lýðræðislegar kosningar.