Yfir 200 þúsund skólabörn í 212 skólum víðs vegar í Bandaríkjunum hafa upplifað skotárás í skólanum sínum frá árinu 1999, samkvæmt rannsókn The Washington Post. Bandaríkjastjórn heldur ekki utan um tölur yfir skotárásir í skólum og á hversu marga þær hafa haft áhrif og því lögðust blaðamenn á The Washington Post í rannsókn á því.
Fréttir fjölmiðla, opnir gagnagrunnar og upplýsingar frá lögreglu voru notaðar í rannsóknina. Rannsóknin hefur tekið rúmt ár, en einnig voru smærri árásir skoðaðar, árásir sem rötuðu ekki í heimspressuna.
Samkvæmt rannsókninni hafa 131 börn, kennarar og aðrir látið lífið í skotárásum í skólum og 272 særst. Skotárásirnar hafa þó haft áhrif á töluvert fleiri. Sjö af tíu árásarmönnunum voru undir 18 ára aldri og er meðalaldurinn 16 ár. Yfir 85 prósent árásarmannanna komu með vopnið að heiman eða höfðu fengið það hjá vini eða ættingja.
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafa verið þrettán skotárásir í Bandaríkjunum en það er mesti fjöldi skotárása á fyrsta ársfjórðungi síðan árið 1999. Í fyrra voru fjórtán skotárásir í skólum og þrettán árið þar áður. Nýlegasta árásin sem rataði í heimspressuna var í Majory Stoneman Douglas High School í Parkland í Florida en þá létust 17 einstaklingar og 17 særðust. Þá gekk 19 ára karlmaður, fyrrverandi nemandi við skólann, inn á skólasvæðið með AR-15 hálfsjálfvirkan riffil og hóf skotárás. Árásin átti sér stað þann 14. febrúar síðastliðinn en í kjölfarið hófu eftirlifandi nemendur úr skólanum átak gegn núverandi byssulöggjöf, sem þau vilja breyta.
March for Our Lives
Átakið nefnist March for Our Lives sem útleggs á íslensku göngum fyrir líf okkar. Þann 24. mars síðast liðinn var svo mótmælt víðs vegar um Bandaríkin og voru fjölmenn mótmæli í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC. Nemendur við Majory Stoneman Douglas High School voru áberandi í mótmælunum þar í borg er ræða Emmu González, nemanda við skólann, eftirminnileg.
Atburðir sem þessir rata þó ekki alltaf í heimspressuna en í gær var skotárás í Forest High School í Ocala í Florida. Einn særðist og enginn lést, en lögreglan brást fljótt við. Þetta átti sér stað þegar nemendur gengu út úr skólastofum til að mótmæla skotárásum í skólum. Nemandi í skólanum tók upp myndband og deildi því á Twitter þegar lögreglan kom inn í skólastofu stuttu eftir að skot heyrðust á skólagöngunum. Árásarmaðurinn, sem er 19 ára gamall og ekki nemandi í skólanum, hefur verið handtekinn.
Here’s a video of police breaching my class after shots were heard about 10 feet outside my classroom. Police and law enforcement responded quickly and efficiently. I always had a fear of something like this happening to my school, I’m so thankful to be okay. pic.twitter.com/JJ4U6XU32j
— Nevada Klapp (@NevadaKlapp) April 20, 2018
Þar á undan voru aðeins 32 dagar liðnir frá síðastu skotárás í skóla í Bandaríkjunum. Einn lést og einn særðist þegar 17 ára drengur kom í skólann, Great Mills High Scool í Great Mills í Maryland, með Glock hálfsjálfvirka skammbyssu. Á síðu The Washington Post má skoða ítarlega síðustu skotárásirnar sem hafa orðið í Bandaríkjunum.