Óánægja hefur skapast innan Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi með framboðslista flokksins. Klofningsframboð frá flokknum mun bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum í maí.
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings mun skipa efsta sæti lista Sjálfstæðismanna. Kristján Þór var ráðinn sem sveitarstjóri af meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna og óháðra eftir kosningar við upphaf þessa kjörtímabils.
Í meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings eru þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokks og tveir fulltrúar Vinstri grænna og óháðra. Í minnihluta eru Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn með tvo fulltrúa hvor um sig.
Heimildarmaður Kjarnans staðfesti í samtali við blaðamann að nýtt framboð muni bjóða fram í vor. Listinn verður þó ekki aðeins skipaður fólki úr Sjálfstæðisflokknum heldur fólki úr öllum áttum í Norðurþingi.
Óánægjan sem veldur því að nýtt framboð hyggst bjóða fram snýr helst að þeim vinnubrögðum sem var beitt við uppstillingu á lista Sjálfstæðisflokksins. Ekki var haldið prófkjör heldur var stillt upp á listann. Í því ferli var Kristján settur í efsta sætið, Helena Eydís Ingólfsdóttir í annað og Örlygur Hnefill Örlygsson í það þriðja.
Á fundi flokksins höfðu komið upp þær hugmyndir að reyna að halda áfram samstarfi við Vinstri græn og óháða. Ákvarðanir voru þó ekki teknar um að fá Kristján oddvitasætið á þeim fundi og því vakti það nokkra óánægju þegar listinn var síðar borinn undir flokksmenn.
Klofningsframboð vegna óánægju með uppstillingu Sjálfstæðismanna á lista fyrir kosningar til sveitarstjórnar í vor er ekki einsdæmi í Norðurþingi. Nýtt framboð mun bjóða fram í Vestmannaeyjum í vor. Fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Íris Róbertsdóttir, hefur ákveðið að leiða þar nýjan lista. Óánægjan í Vestmannaeyjum skapaðist einnig útaf því að ekki var haldið prófkjör áður en raðað var á framboðslista.