Alríkisdómari í Washington D.C. dæmdi í gær að ákvörðun forsetans, Donald Trump, um að hætta að taka við innflytjendum í gegnum D.A.C.A. lögin væri ólögmæt og óútskýrð. Dómarinn, John D. Bates, hefur gefið ríkisstjórn Trump 90 daga til að færa lagaleg rök fyrir því að afnema D.A.C.A. lögin. Að þeim tíma liðnum verður aftur tekið við nýjum umsóknum um D.A.C.A. náist ekki að færa rök fyrir ákvörðununni.
Bates, er þriðji dómarinn til að komast að þessari niðurstöðu. Dómarar í San Francisco og New York hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að það samræmist ekki lögum að afnema D.A.C.A. lögin og þar af leiðandi að senda fólk úr landi sem notið hefur verndar undir D.A.C.A. lögunum.
D.A.C.A. lögin
D.A.C.A. lögin eða Deferred Action for Childhood Arrivals program snúast um að veita börnum óskráðra innflytjenda vernd, sem hafa komið ólöglega til Bandaríkjanna með foreldrum sínum þegar þau voru börn. Þau hafa því alist upp sem Bandaríkjamenn án þess þó að hafa nokkur réttindi frá hinu opinbera.
Barack Obama setti lögin á sínum tíma sem hafa verið í gildi frá árinu 2012. Lögin gefa fólki undir þrítugu tveggja ára landvistar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum. Að þessum tveimur árum liðnum hafa þau tækifæri til framlengja leyfin. Þetta hefur verið mikil réttarbót fyrir réttindalausa ólöglega innflytjendur, sem eðli málsins samkvæmt tóku ekki þá ákvörðun sjálf að koma til landsins ólöglega sem börn. Undir vernd geta þau tekið m.a. bílpróf, greitt lægri skólagjöld, keypt fasteignir og gengið í háskóla.
D.A.C.A. ná yfir þröngt skilgreindan hóp, vernd laganna nær yfir um 690 þúsund manns. Með því að sækja um D.A.C.A. gefa umsækjendur yfirvöldum leyfi til að kanna bakgrunn þeirra.
Til þess að sækja um D.A.C.A. leyfi þarf umsækjandi að sýna fram á að hann:
- hafi verið yngri en 31 árs 15. júní 2012
- hafi verið yngri en 16 ára þegar hann kom til Bandaríkjanna
- hafi búið samfellt í Bandaríkjunum frá 15. júní 2007 þangað til hann sækir um umsókn
- hafi ekki brotið af sér fyrir 15. júní 2012
- sé í skóla eða hafi útskrifast úr skóla
- ef viðkomandi er ekki í skóla eða hefur ekki útskrifast getur hann sótt um D.A.C.A. ef hann er útskrifaður úr hernum eða frá landhelgisgæslunni
Pólitískur leikur Trump
Donald Trump sagði í kosningabaráttu sinni að hann myndi vinna að því að afnema lögin frá fyrsta degi, ef hann myndi ná kjöri. Í september síðast liðinn gaf hann út að þingið myndi fá sex mánuði til að vinna að betri löggjöf fyrir þennan hóp. Að þeim tíma liðnum myndi ekki vera tekið við nýjum umsóknum um D.A.C.A. leyfi.
Vera þeirra í Bandaríkjunum myndi því ekki lengur teljast lögleg og þeim gert skylt að yfirgefa landið. Þeir sem njóta verndarinnar geta þó endurnýjað leyfin sín. Ákvörðunum Trump hefur verið mótmælt harðlega, enda stór hópur sem verður sendur úr landi á næstu mánuðum og árum.
Í upphafi árs var mikið tekist á um fjárlögin í bandaríska þinginu. Trump vildi fá í gegn heimildir í fjárlögunum til að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Einnig vildi hann fá heimildir til þess að setja ný og strangari innflytjendalög. Hann rétti fram þá sáttahönd að ef hann myndi fá heimildir til að byggja vegginn, myndi hann staðfesta nýja löggjöf sem myndi leysa vanda ungra óskráðra innflytjenda. Þingmenn náðu ekki að komast að samkomulagi um lög sem næðu yfir þennan hóp og því fékk Trump ekki fjárheimildir til að byggja vegginn.