Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur afboðað sig á opinn fund velferðarnefndar Alþingis á mánudaginn. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar í dag og staðfesti Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar og þingmaður Pírata, þetta í samtali við Kjarnann.
Nefndinni var tilkynnt þetta í dag og mun því fundurinn falla niður.
Eins og kom fram í fréttum í gær boðaði Halldóra félags- og jafnréttismálaráðherra á opinn fund í velferðarnefnd næstkomandi mánudag. Ásmundur Einar sagði í fréttum RÚV í gær að hann myndi mæta á fundinn og fara yfir málin.
Athugasemd gerð kl. 19:40: Tekin hefur verið sú ákvörðun að halda fundinn eftir allt saman næstkomandi mánudag eftir misskilning milli nefndar og ráðuneytis.
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu og frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, beitti sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn. Þetta kom fram í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar í gær.
Segir jafnframt að Bragi hafi hann átt ítrekuð samskipti við föður mannsins sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál.
Ásmundur Einar var upplýstur um málsatvik, samkvæmt heimildum Stundarinnar, og afskipti Braga Guðbrandssonar af umræddu barnaverndarmáli á fundi í ráðuneytinu í lok janúar 2018.
Hann er nú staddur erlendis en sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Kjarnann í gær að hún hefði heyrt í Ásmundi Einari og að þau myndu fara yfir málin þegar hann kemur til baka.
Aðspurð um hvort að þau atriði sem nú liggja fyrir eftir umfjöllun Stundarinnar, um afskipti Braga að máli mannsins sem grunaður var um að brjóta gegn dætrum sínum, breyti einhverju þegar kemur að stuðningi Katrínar sjálfrar og ríkisstjórnarinnar við framboð Braga hjá Sameinuðu þjóðunum ítrekaði hún að hún myndi ræða málið við Ásmund þegar hann kemur að utan.