Lögmaður Stormy Daniels, klámstjörnunnar bandarísku sem segist hafa haldið við Donald Trump Bandaríkjaforseta, segist fullviss um að Trump verði gert að segja af sér. Í samtali við Guardian segir Michael Avenatti, lögmaður Daniels, að svo mikið af sönnunargögnum um misferli forsetans og annarra í kringum hann eigi eftir að koma upp á yfirborðið að það verði ómögulegt fyrir hann að lifa það af.
Skjólstæðingur Avenatti, klámmyndastjarnan Stormy Daniels, mun hafa eytt nótt með Trump árið 2006 en lögmaður forsetans, Micael Cohen, greiddi henni 130 þúsund Bandaríkjadali til að þegja um málið.
Cohen þessi sætir nú rannsókn vegna þessarar greiðslu sem átti sér stað í miðri kosningabaráttu Trump árið 2016. Þessi þöggun kunni þannig að hafa áhrif á niðurstöðu kosningarinnar og sé þar af leiðandi ólögleg íhlutun í kosningabaráttuna.
Avenatti segir að aðeins sé búið að snerta toppinn á ísjakanum í þessu máli. Ameríkanar muni fyllast viðbjóði þegar þeir frétta a framferði Trump og Cohen og að afleiðingarnar verði alvarlegar.
Framhjáhald Trump með Daniels hefur valdið honum erfiðleikum lengi. Hann sagði fréttamönnum í apríl að hann hefði ekki vitað af greiðslu Cohen til hennar. Hins vegar sagði Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York borgar og einn af nýju lögmönnum forsetans, að ekki aðeins hafi Trump vitað af greiðslunni, hann hafi endurgreitt Cohen vegna hennar.
Við tók undarlegt ferli næstu tvo sólarhringana þar sem Trump fyrst viðurkenndi það sem Giuliani hafði sagt en síðar dró hann það til baka og sagði borgarstjórann fyrrverandi ekki með sitt á tæru.
Í viðtalinu við Guardian sagði Avenatti að Guiliani hefði eitt sinn verið öflugur lögmaður. Hann sé hins vegar kominn af léttasta skeiði sem sjáist best á þessum málflutningi og vandræðum sem orð lögmannsins hafa komið forsetanum í.
Avenatti hefur ýjað að því að það kunni að vera að fleiri konur hafi þegið greiðslu sambærilegri þeirri sem Daniels fékk, jafnvel margar.