Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018 á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Nichole Leigh Mosty einn forsvarsmanna hópsins segir í samtali við Kjarnann að þær séu auðmjúkar og þakklátar fyrir þessi verðlaun. „Mér finnst þetta vera staðfesting á því að við höfum ekki staðið nægilega vel að þessum hóp,“ segir hún og bætir því við að samfélagið í heild sinni hafi nú verk að vinna til að bæta aðstæður kvenna af erlendum uppruna. Verðlaunin séu hvatning til þess að taka höndum saman.
„Þetta er einungis fyrsta skrefið af mörgum. Við ætlum að halda áfram að valdefla konur og samtökin,“ segir Nichole. Og að standa vörð um mannréttindi og halda áfram að búa til sterk tengslanet fyrir konur af erlendum uppruna.
Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á þeim málum sem varða mannréttindi borgarbúa og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Vöktu fólk til umhugsunar um stöðu þessa hóps
Í rökstuðningi Reykjavíkurborgar fyrir verðlaununum segir að samtökin hafi staðið að vitundarvakningu á stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Sögur þeirra í tengslum við #Metoo hafi vakið fólk til umhugsunar um sérstaklega viðkvæma stöðu þessa hóps innan íslensks samfélags. Þær hafi sýnt hugrekki og styrk, verið fyrirmyndir og öflugt tengslanet þeirra hefur orðið afl til þjóðfélagsbreytinga.
„Með því að veita konum af erlendum uppruna mikilvægan og öruggan vettvang þá hafa þær fengið verkfæri til þess að takast á við ofbeldi og mismunun sem þær hafa orðið fyrir,“ segir í tilkynningunni.
Samtökin hafa skapað mikilvægan vettvang og samstöðuafl
Konur af erlendum uppruna á Íslandi er hópur sem hefur þurft að upplifa heimilisofbeldi, grófar kynferðisofbeldi, hópnauðganir, nauðung og innan hópsins eru fórnarlömb mansals. Þær hafa þurft að lifa með andlegu ofbeldi, einelti, misrétti og niðurlægingu. Þær stigu fram þann 25. janúar síðastliðinn og sögðu frá reynslu sinni undir merkjum #Metoo-byltingarinnar.
Í byrjun árs var stofnaður hópur á Facebook þar sem konum að erlendum uppruna var gert kleift að að segja sögur sínar um kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun sem þær hafa orðið fyrir. Á örfáum dögum fjölgaði konunum í hópnum úr nokkrum tugum í 660. Allar eru þær annað hvort af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda.
Borgarstjórinn sagði við afhendingu verðlaunanna að samtökin hafi skapað mikilvægan vettvang og samstöðuafl fyrir konur alls staðar að úr heiminum, sem búsettar eru á Íslandi, til þess að láta raddir sínar heyrast. Verðlaunin að þessu sinni eru 600 þúsund krónur.