Konur í hópi breskra málflutningsmanna hafa nú tekið sig saman og stofnað hóp með það að leiðarljósi að binda enda á áreitni sem þær verða fyrir í starfi. Þetta kemur fram í frétt The Times sem birtist í dag.
Ekki er úr vegi að bera þetta átak við þá fjölmörgu fabebook-hópa sem hafa verið stofnaðir síðastliðna mánuði og misseri á Íslandi varðandi kynbundið ofbeldi og áreitni. Herferðin nefnist Behind the Gown sem hægt er að þýða sem Bakvið skikkjuna og vísar í þann fatnað sem breskir málflutningsmenn verða að klæðast í dómsal.
Konurnar telja valdaójafnvægi vera innan stéttarinnar og að það eigi ekki einungis við um kynferðislega áreitni. Þessu verði að breyta.
Í fréttinni kemur fram að kvenkyns málflutningsmenn tilkynni ekki áreitni sem þær verða fyrir í starfi, þrátt fyrir að þeim sé skylt að gera það. Í könnun sem gerð var árið 2016 meðal málflutningsmanna hafi komið fram að 40 prósent þátttakenda höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Þrátt fyrir það hafi einungis tvær kvartanir borist til Bar Standards Board, sem er eins konar lögmannafélag þar í landi.
Ástæðurnar fyrir þessu eru nokkrar og samofnar, meðal annars spilar smæð stéttarinnar inn í og þurfa yngri starfsmenn iðulega að treysta á þá eldri þegar kemur að starfsframa, segir í fréttinni. Vegna þess séu konur ragari við að tilkynna brot sem þær verða fyrir.
Þann 7. desember síðastliðinn sendu konur í réttarvörslukerfinu á Íslandi frá sér yfirlýsingu þar sem þær kröfðust þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti yrði sett í forgang og að allir vinnuveitendur tækju ábyrgð á að uppræta vandamálið. „Kynbundið áreiti, mismunun eða ofbeldi á ekki að líðast og krefjast konur þess að á þær sé hlustað og að allir samverkamenn taki ábyrgð á því að breyta til betri vegar,“ sagði í yfirlýsingunni.
Bransinn á Íslandi mjög karllægur
Nokkur gagnrýni lét á sér kræla varðandi dagskrá Lagadagsins 2018 sem haldinn var þann 27. apríl síðastliðinn á vegum Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Dómarafélags Íslands. Nokkrar konur höfðu samband við nefnd sem sá um skipulagningu Lagadagsins og báðu um að sérstök málstofa yrði viðhöfð um #metoo-umræðu. Þegar dagskráin var síðan kynnt bólaði ekkert á slíkri umræðu eða málstofu og samkvæmt heimildum Kjarnans þá voru svörin á þá leið að málefnið myndi ekki trekkja nægilega vel að og of langt væri síðan yfirlýsing kvenna innan réttarvörslukerfisins hefði verið til að eiga erindi á viðburðinn.
Úr varð að hafa örmálstofu um #metoo-byltinguna þar fjallað var um möguleg viðbrögð við henni innan réttarvörslukerfisins.
Dagný Aradóttir Pind var ein þeirra sem gagnrýndi dagskrána áður en henni var breytt. Hún sagði í samtali við Kjarnann á sínum tíma að málefnið hefði átt fullt erindi og rætt hefði verið innan stéttarinnar síðustu mánuði að mikil þörf væri á því að ræða #metoo enn frekar. „Við áttum okkur allar á því hvernig bransinn er en hann er sögulega mjög karllægur,“ sagði hún.
Hún sagði enn fremur að #metoo-umræður skipti enn máli, sérstaklega í ljósi þess að margar konur hefðu ekki viljað skrifa undir yfirlýsinguna á sínum tíma eða deila sögum vegna smæðar samfélagsins. „Svona menningu verður ekki umturnað, einn, tveir og tíu,“ bætti hún við.