Andri Snær Magnason, rithöfundur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, segir orkufyrirtækin beita almenningi fyrir sig í viðleitni þeirra til að afla orku fyrir stóriðju. Þetta segir Andri í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann fjallar um fyrirhugaða virkjun Hvalár í Árneshreppi.
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar um helgina var mikið tekist á um þessi virkjunaráform og þannig fór að allir fimm hreppsnefndarfulltrúarnir eru virkjunarsinnar. Því má búast við að áformin muni ganga eftir í ekki fjarlægri framtíð.
Andri Snær segir 95 prósent orkuframleiðslu á Íslandi seld til kísilvera, álvera og nú hafi bitcoin bæst við sem fáránleg orkusóun. Þrátt fyrir þetta sjáist orkufyrirtækin ítrekað beita almenningi fyrir sig, orkuþörf, orkuskorti eða öðru í viðleitni fyrirtækja til að afla orku fyrir stóriðju.
„Ef innviðir orkuframleiðslu á Vestfjörðum eru veikir stafar það af því að orkugeirinn hefur ekki haft áhuga á að þjóna landsmönnum á meðan stóriðjan hefur fengið milljarða gjafir. Umræðan um Hvalá snertir að engu leyti almenning á Vestfjörðum, orkukerfið þarf má bæta, laga eða styrkja með margvíslegum hætti,“ skrifar Andri.
Hann segir að ef aðeins almenningur kallaði á þessa virkjun væri hún talin of dýr og óhagkvæm sem viðbót við kerfi sem þarfnast styrkingar og lagfæringar. Þörfin fyrir Hvalárvirkjun sé fyrst og fremst vegna loforða um Kísilver á Húsavík, Helguvík og fjölgun gagnavera til að leita að Bitcoin.
„Í Reykjanesbæ höfum við séð fremur stórt sveitarfélag klúðra sínum skipulagsmálum, ef einhver telur að 50 manna hreppur eigi að hafa skipulagsvald í jafn flóknu máli og við sjáum í tilfelli Hvalárvirkjunar þá er sá hinn sami á því að Íslandi eigi að vera lélegt og illa rekið land uppfullt af fúski og losarahætti. Nú sjáum við hvernig hagsmunaaðilar beita fyrir sig Vestfirðingum í stríði um aðgang að auðlindum landsins. Íslendingar eru algerlega fullfærir um að tryggja fullkomið tífalt orkuöryggi á öllu landinu með þeim 2000MW sem hafa nú þegar hafa verið virkjuð.“
95% orkuframleiðslu á Íslandi er seld til kísilvera, álvera og nú hefur bitcoin bæst við sem fáránleg orkusóun. Þrátt...
Posted by Andri Snær Magnason on Monday, May 28, 2018