Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vill leggja niður kjararáð. Þetta kemur fram í frumvarpi sem meirihlutinn hefur lagt fram.
Í frumvarpinu kemur fram að þrátt fyrir að lögin um kjararáð skuli felld niður skulu allir þeir sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs halda kjaraákvörðunum þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun og starfskjör þeirra. Hafi ný ákvörðun ekki verið tekin fyrir 1. maí 2019 skulu laun þessara aðila taka breytingum í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna samkvæmt nánar skilgreindum útfærslum.
Þau mál sem eru til meðferðar hjá kjararáði fyrir gildistöku laganna skal lokið eigi síðar en sex mánuðum frá gildistökunni. Launaákvarðanir til hækkunar semt teknar eru eftir þann frest skulu vera afturvirkar frá 1. janúar 2019. Þá skal bjóða starfsmanni kjararáðs að flytjast í starf hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Í greinargerð með lögunum kemur fram að kjararáð hafi frá 2011 til 2015 ákveðið launabreytingar að mestu í samræmi við kjarasamningsbundnar hækkanir og almenna launaþróun. „Í lok árs 2015 var hins vegar tekin ákvörðun um breytingar á launum dómara sem hafði í för með sér umtalsverðar hækkanir. Hið sama var uppi á teningnum árið 2016 þegar kjörnir fulltrúar og ýmsir embættismenn voru hækkaðir í nokkru samhengi við þær ákvarðanir sem teknar höfðu verið árið áður um dómara. Þessar hækkanir námu tugum prósenta.“
Sett hafi verið ný lög um kjararáð og starfsaðferðir þess í árslok 2016. Vegna gildistökuákvæða má segja að kjararáð hafi í raun ekki enn hafið störf á grundvelli nýju laganna og því engin reynsla komin á þau.“